Einar Guðmundsson og Aron Freyr Heimisson keyptu íbúð í miðbænum fyrir nokkrum árum og hafa hægt og rólega verið að gera hana að sinni. Einar og Aron eru báðir grafískir hönnuðir svo það er mikil hugsun á bak við allt sem þeir taka sér fyrir hendur. Þeir reka verslunina Mikado í miðbæ Reykjavíkur og hönnunarstofuna Sítrus.
„Við keyptum íbúðina um áramótin 2021/2022 og urðum strax heillaðir af sjarma hússins. Hún er í miðbænum í húsi sem var byggt í kringum árið 1937 og er á efstu hæð. Í íbúðinni eru tvær stofur, tvö svefnherbergi, eldhús og tvö baðherbergi,“ segir Einar.
Íbúðin hafði verið í eigu sömu fjölskyldunnar í tugi ára og var vel viðhaldið að öllu leyti í tugi ára. Búið var að uppfæra baðherbergin, gólfefnið ásamt því að gera eldhúsið upp að hluta. Þeir urðu þó ekki að gera mikið en settu sinn eigin svip á íbúðina.
„Við máluðum alla íbúðina með kalkmálningu, settum rósettur til að halda í gamla tímann og lökkuðum hurðir og glugga. Við stefndum svo frá upphafi að því að taka eldhúsið í gegn og gera það að okkar. Með tímanum værum við einnig til í að fríska upp á baðherbergin og þá er öll íbúðin í okkar anda,“ segir Einar.
Hvað varð til þess að þið tókuð eldhúsið í gegn?
„Það var ekki langt frá því að fyrri eigendur gerðu upp eldhúsið og það var vel gert en ekki okkar stíll. Þar sem maður eyðir einna mestum tíma í eldhúsinu langaði okkur að setja okkar svip á það. Við reyndum því að nýta vel það sem fyrir var, líkt og skrokkinn úr eldri innréttingu, en skiptum um borðplötu og framhliðar,“ svarar Einar.
„Einnig rifum við niður efri skápa og settum fljótandi hillur til að létta á og stækka rýmið. Við skiptum um öll tæki og flísalögðum upp á nýtt. Síðast en ekki síst felldum við ofninn undir glugganum inn í innréttinguna til þess að fela hann og gera hann ekki að miðpunkti eldhússins.“
Skiptir eldhúsið ykkur miklu máli?
„Já, að okkar mati skiptir það gríðarlega miklu máli. Það er ákveðinn miðpunktur heimilisins. Þar byrja allir morgnar og þar eyðir maður miklum tíma við eldamennsku. Það verða alltaf til eldhúspartí þegar gestir koma í heimsókn.“
Litir skipta þá miklu máli, bæði fagurfræðilega og tilfinningalega, sem einkennir hönnunarmenntað fólk oft á tíðum.
„Við vildum fá mikla hlýju inn í rýmið og völdum litina á veggina út frá því. En liturinn á veggjunum er ekki það eina sem skiptir máli heldur líka áferð, efnisval, náttúruleg birta rýmisins og lýsingin, sem spilar allt saman inn í heildarupplifunina. Við vildum að rýmið væri ekki aðeins fallegt heldur líka þægilegt að vera í frá degi til dags.“
Hvaðan kom innblásturinn?
„Við tókum okkur góðan tíma í að hugsa hvernig við vildum hanna eldhúsið. Við fórum alveg 180 gráður frá fyrstu plönum. Að auki tókum við eitt og hálft ár í framkvæmdirnar þar sem við þurfum að taka hlé vegna flutninga á verslun okkar, Mikado, og svo giftum við okkur í millitíðinni. Sumar ákvarðanir varðandi veggi og gólfefni komu langsíðastar. Þá vorum við búnir að hugsa vel hvernig allt kæmi heim og saman,“ svarar Einar.
„En við sækjum innblástur víða. Mikið til Skandinavíu og Japan en einnig Suður-Evrópu.“
Hvernig stemningu vilduð þið ná fram í eldhúsinu?
„Fyrir okkur skiptir hlýja og notalegheit miklu máli. Svo það var útgangspunkturinn okkar. Við eyðum mjög miklum tíma í eldhúsinu svo við vildum skapa rými sem okkur liði sem best í.“
Hvaða áskoranir komu upp í ferlinu?
„Það komu í sjálfu sér ekki miklar áskoranir upp. Alltaf þetta sama eins og í öllum framkvæmdum, ef eitthvað er rifið, er yfirleitt eitthvað öðruvísi sem leynist á bak við en búist var við og þá þarf að meta stöðuna og bregðast við.“
Hvaða efni voru notuð í rýminu og af hverju?
„Borðplata, vaskur og framhliðar á innréttingu eru úr ryðfríu stáli. Þar sem stálið er frekar kalt efnislega vildum við vega það upp með hlýjum tónum. Við settum eik með á völdum stöðum, eins og meðfram ísskápnum, í vegghillu og undir borðplötuna, til að fá jafnvægi í efnisvalið. Svo létum við útbúa einskonar rist sem við settum fyrir framan ofninn undir gluggann til þess að fela hann og fá hlýjuna úr viðnum á móti. Gólfflísarnar fluttum við inn frá Bretlandi og eru grófar terracotta-flísar. Svo máluðum við með nýrri plaster paint-málningu frá Kalklitum sem gefur grófa áferð, þar sem nýrri gerð af sementsblöndu er blandað saman við kalkmálninguna og allt svo penslað á með þykkri blöndu.“
Er mikilvægt að eldhúsið sé í takt við hin rými heimilisins?
„Já algjörlega! Við fundum það mikið áður en við fórum í framkvæmdirnar á eldhúsinu hvað það stakk í stúf við restina af íbúðinni. Um leið og framkvæmdirnar kláruðust fann maður hvað öll rými töluðu betur saman. Ætli við verðum því ekki að fara í baðherbergin til að klára þetta og fá heildarmynd á heimilið.“
Þið eruð báðir þekktir fyrir að vera mjög smekklegir, eruð báðir hönnuðir og horfið á hlutina á þann hátt, hvernig gengur ákvarðanatakan heima við í framkvæmdum?
„Blessunarlega virðumst við nær undantekningalaust deila sömu sýn þegar kemur að hönnun. Það verða því aldrei árekstrar og smekkurinn okkar er nánast alltaf eins, svo allar ákvarðanatökur reynast okkur mjög auðveldar. Hvort sem það snýr að vinnu, heimili eða einkalífi,“ svarar Einar.
Hvernig nýtið þið mismunandi kosti ykkar?
„Við reynum að nýta mismunandi styrkleika hvor annars í svona verkefnum. Annar okkar er fljótari að sjá heildarmyndina og litasamsetningar, á meðan hinn dettur dýpra í praktísku hlutina. Ég myndi ekki segja að annar okkar hefði yfirhöndina, heldur er þetta samtal þar sem við treystum hvor öðrum og finnum oftast sameiginlega lausn fljótt.“