Litir einkenna íbúð Ingunnar og Guðmundar sem er í Þingholtunum í Reykjavík. Íbúðin var gjörsamlega tekin í gegn og mikil ást lögð í verkefnið.
Ingunn Embla Axelsdóttir starfar sem verslunarstjóri hjá íslenska hönnunarfyrirtækinu Farmer's Market. Hún er mikill föndrari með glingur og býr til sitt eigið skart, hefur rosalegan áhuga á innanhússhönnun og skemmtilegum litasamsetningum. Ingunn býr með leikmyndasmiðnum og tónlistarmanninum Guðmundi Óskari Sigurmundssyni í 102 ára gömlu timburhúsi í Þingholtunum í Reykjavík. Ásamt þeim býr þar nú fyrrverandi villikötturinn Dídí.
„Stíllinn á heimilinu er skemmtilegt blanda af nokkrum innanhússstefnum. Ég myndi sjálf segja að hann væri fjölbreytilegur og skrautlegur með blöndu af skandínavískum, japönskum og miðaldaáhrifum,“ segir Ingunn.
Hvað heillaði ykkur við íbúðina?
„Það sem heillaði mig mest var staðsetningin í Þingholtunum. Íbúðin er staðsett á horni, þá er útsýnið yfir gullfalleg aldargömul hús og það er alltaf skemmtilegt að fylgjast með lífinu á götunum fyrir utan. Birtan í íbúðinni lék einnig stórt hlutverk í því sem heillaði okkur. Það eru nefnilega gluggar nánast allan hringinn þannig að birtuflæðið er æðislegt,“ svarar hún.
Það kom fljótt í ljós þegar parið skoðaði íbúðina að hana þyrfti að taka í gegn frá a-ö.
„Við erum svo vel sett þar sem Guðmundur er þúsundþjalasmiður og pabbi er pípulagningameistari. Við ákváðum að taka af skarið og demba okkur í heljarinnar framkvæmdir. Við fengum ómetanlega hjálp frá vinum og fjölskyldu og hefðum aldrei getað þetta án þeirra,“ segir Ingunn.
Fundu fjársjóð
Öllu var skipt út og endurnýjað nema gólfið í íbúðinni.
„Undir gömlu plastparketi leyndust upprunalegar 100 ára gólffjalir sem við pússuðum upp og lökkuðum. Við vildum hins vegar gera allt upp í þessum gamla stíl í anda hússins, eins og til dæmis að panelleggja alla veggina og notast við viðeigandi veggfóður. Guðmundur sérsmíðaði svo skrautlista í loftið, á gólfin og í kringum alla glugga. Stóru framkvæmdirnar tóku um það bil eitt og hálft ár. Við erum bæði í fullu starfi og við gerðum íbúðina upp sjálf með hjálp fjölskyldu og vina,“ svarar hún.
Ingunn og Guðmundur fluttu inn í íbúðina um miðjan desember á síðasta ári. Það var þó ekki fyrr en í þessum mánuði sem öllum smáframkvæmdum í íbúðinni lauk. „Framtíðarframkvæmdir eru svo að taka húsið í gegn að utan og setja aftur á það krossglugga eins og voru í upprunalegum teikningum frá árinu 1923.“
Hún segir Guðmund einstaklega handlaginn og að hann eigi allan heiðurinn af smíðaverkinu og skipulaginu á íbúðinni. „En svo var það pabbi sem lagði allar pípulagnir og gerði upp baðherbergið. Persónulega myndi ég alls ekki segja að ég væri handlagin fyrir utan föndurgerð en ég var einstaklega góð í hlutverki klappstýrunnar og tók upp allt ferlið til þess að leyfa fólkinu okkar að fylgjast með. Svo kom ég mest að í lokin þegar kom að því að velja liti og raða upp innanhússmunum.“
Hvaðan færðu innblástur?
„Hann kemur víða að. Móðir mín var fyrsta og stærsta fyrirmyndin í öllu sem viðkemur tísku og hönnun. Svo myndi ég segja að litasamsetningarnar í leikmyndum eftir Wes Anderson séu einnig mikill innblástur fyrir mig. Svo er það bara fólkið í kringum mig og á samfélagsmiðlum.“
Hvaðan kemur litagleðin?
„Ég vil meina að litadýrkunin hafi upprunalega komið úr æsku. Þegar ég var lítil klæddi mamma mig upp í barnaföt frá hollenska barnafatamerkinu Oilily sem sérhæfir sig í björtum litasamsetningum og glaðlegum og skemmtilegu mynstri. Svo finnst mér mjög mikilvægt fyrir geðheilsuna að umkringja mig björtum litum og þá sérstaklega í skammdeginu, sem við könnumst öll vel við.“
Baðherbergið minnst en dýrast
Fylgirðu tískustraumum í innanhússhönnun?
„Nei, ég myndi ekki segja að ég fylgdi neinum ákveðnum tískustraumum. Í rauninni er svo mikið í gangi hérna á heimilinu að það er hægt að komast upp með að blanda alls kyns stílum sem ganga upp fyrir heildarmyndina.“
Ingunn segir baðherbergið sinn uppáhaldsstað á heimilinu. „Það er það allra minnsta en langdýrasta herbergið í íbúðinni. Mig hafði lengi dreymt um að veggfóðra baðherbergið mitt með þessu gula Almond Blossom-veggfóðri eftir Van Gogh. Svo er það öll ástin, svitinn og tárin sem pabbi minn og bróðir lögðu í það að flísaleggja og Guðmundur sá um að sérsmíða allar innréttingar inn á þetta pínulitla baðherbergi til að fullnýta möguleika þess. Útkoman gæti ekki verið betri að okkar mati.“
Hvert ert þitt uppáhaldshúsgagn?
„Ítalska hlébarðastyttan sem situr á gólfinu við hliðina á skemmtaranum er uppáhaldsmunurinn minn. Hann heitir Barði og ég keypti hann í Góða hirðinum árið 2018. Ég er með hálfgert blæti fyrir postulínsdýrum og átti mér alltaf draum um að eignast stóra styttu af hlébarða. Þar sem við erum enn barnlaus og engin hætta á að styttusafnið leggist í rúst fær Barði að sitja þarna í friði enn sem komið er.“
Hvað gera litir fyrir þig?
„Litir veita mér mikla gleði. Ég heillast mest af björtum litum og mér þykir mjög mikilvægt að umkringja mig þeim. Sérstaklega yfir dimmustu mánuðina.“
Ertu með eitthvert draumahúsgagn sem þig langar að fjárfesta í?
„Það er retró-sófinn frá hollenska merkinu HK Living í Royal Velvet-efninu. Ég myndi velja karamellulitinn eða ólífugrænan. Þetta er guðdómlega fallegur og þægilegur sófi.“