sun. 6. júlí 2025 06:00
Hulda er eigandi HJARK arkitekta og hafa síðustu ár verið annasöm hjá henni.
„Nokkrir veraldlegir hlutir gleðja mig daglega“

Hulda Jónsdóttir er arkitekt, stofnandi og eigandi HJARK arkitekta. Í arkitektúrsnáminu heillaðist hún af módernismanum og segist alltaf vera með smá varasjóð ætlaðan fallegri list.

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Síðustu ár hafa verið mjög annasöm hjá okkur á HJARK, þar sem við höfum meðal annars verið að hanna lúxusveiðihús og leikskólann í Urriðaholti. Um þessar mundir erum við að teikna nýjan leikskóla fyrir allt að 200 börn, auk þess sem við erum að vinna að hönnun á stóru nýju hverfi/deiliskipulagi í Vík í Mýrdal.“

Hvað er það fallegasta sem þú átt?

„Fyrir utan börnin mín og fjölskyldu, sem eru mér það allra dýrmætasta og fallegasta, eru nokkrir veraldlegir hlutir sem gleðja mig daglega. Til dæmis bleiki „köngullinn“ minn (PH Artichoke) og brúna leður-Eggið mitt eftir Arne Jacobsen. Bæði eru þau falleg húsgögn með bæði fagurfræðilegt og persónulegt gildi.“

 

Áttu þér uppáhaldsveitingahús?

„Á Íslandi myndi ég nefna Tides og Matarkjallarann, báðir eru þeir frábærir staðir og mínir „go to“ fyrir gott stefnumót. Skál kom mér líka skemmtilega á óvart nýlega og ég mæli hiklaust með.“

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Ég reyni að hreyfa mig reglulega, lyfti og hleyp og það er mín leið til að hugleiða og losa mig við stress. Æfingar eru mín núllstilling.“

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Próteinkaffi, það er einfalt, fljótlegt og virkar vel fyrir mig.“

 

Ertu að safna þér fyrir húsgagni?

„Við vorum nýlega að stækka við okkur svo að það vantar ýmislegt. Praktískt séð er ég að safna fyrir framkvæmdunum sem eru í gangi en ég er alltaf með smá hliðarsjóð sem er ætlaður fyrir fallega list. Næst á dagskrá er skúlptúr fyrir stofuna.“

Hvernig arkitektúr finnst þér fallegastur?

„Það er erfitt að velja en mér finnst allar vel hannaðar byggingar fallegar, óháð stíl. Ég hef gaman af fjölbreytni og finnst jafnvel gaman að blanda stílum saman. Í náminu heillaðist ég af módernismanum, sérstaklega Le Corbusier og Frank Lloyd Wright, og svo hafði ég mikla ánægju af að vinna hjá Bjarke Ingels og læra af honum. Arkitektúr sem lagar sig að náttúru og umhverfi heillar mig þó líklega mest. Ég hef líka mikla ánægju af fallegum geómetrískum byggingum eins og Ásmundarsafni og Hörpu.“

 

Áttu þér uppáhaldstímabil í sögu byggingarlistar?

„Ég á ekki eitt ákveðið uppáhaldstímabil, því hvert tímabil hefur sinn sjarma. En það tímabil sem stendur næst mínum stíl er módernisminn; ég hef sérstakt dálæti á hreinum línum og einföldum formum. Það þýðir þó ekki að allt þurfi að vera kassalaga, eins og glöggt má sjá í verkefnum okkar.“

Hvaða forrit notar þú mest í símanum þínum?

„Instagram og Pinterest eru mikið notuð bæði til innblásturs og tengsla. Einnig nota ég Outlook-appið mjög mikið til að vinna í símanum, ætli það sé ekki mest notaða forritið hjá mér.“

Er eitthvert lag sérstaklega mikið í spilun hjá þér núna?

„Já! Ég var á tónleikum hjá Bryan Adams um daginn og hann hefur verið á repeat síðan – alger nostalgía.“

 

Langar þig í einhverja nýja flík?

„Já, mig langar í fallega nýja ullarkápu fyrir haustið. Svo er ég líka í leit að einhverjum sturlað flottum leðurjakka en ég er ekki enn búin að finna „þann eina rétta“.

Hvaða bók last þú síðast?

„Hulda eftir Ragnar Jónasson. Ég fékk hana í jólagjöf frá afa mínum og naut þess virkilega að lesa hana.“

Hvaða þætti ertu að horfa á núna?

„Ég er að horfa á You og White Lotus og svo missi ég aldrei af Heimsókn með Sindra.“

 

Hvernig skipuleggur þú daginn þinn?

„Ég vakna og mæti í daginn. Vinnan mín er mjög lifandi og oft ófyrirsjáanleg. Það er sjaldan hægt að skipuleggja allt frá A til Ö, þannig að ég reyni að halda sveigjanleikanum og nýta daginn sem best.“

Hvernig núllstillir þú þig?

„Ég fer á æfingu. Það hreinsar hugann og líkamann. Það er mín hugleiðsla.“

Hvað reynir þú að forðast í lífinu?

„Ég forðast neikvæðni, slúður og að láta hræðslu stjórna ákvörðunum. Ég á erfitt með að vera í kringum slíka orku. Ég er mjög jákvæð að eðlisfari og trúi því að allt sé mögulegt ef maður vinnur markvisst að því og gefst ekki upp.“

Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?

„Foreldrar mínir hafa haft mest áhrif. Þau hafa alltaf stutt við bakið á mér í öllu sem ég geri. Úr arkitektúrbransanum vil ég sérstaklega nefna Högnu Sigurðardóttur, sem hefur verið mikil fyrirmynd, sérstaklega fyrir íslenskar konur í faginu. Þar að auki held ég að mótlæti og áskoranir sem ég hef mætt í gegnum lífið hafi mótað mig hvað mest, gert mig sterkari og kennt mér að treysta sjálfri mér.“

til baka