Íslensk stjórnvöld þurfa að flýta lagasetningu um notkun gervigreindar við gerð hugverka til að tryggja að hagnýting á verkum rithöfunda í gervigreindarkerfum eigi sér aðeins stað með skýru samþykki og gegn sanngjarnri greiðslu.
Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Rithöfundasambands íslands sem var haldinn í lok apríl.
Sambandið skorar einnig á opinberar stofnanir og einkafyrirtæki að nýta ekki gervigreind við lausn verkefna sem áður hafa verið á verksviði listamanna og höfunda „og taka þannig ekki þátt í atlögu gegn mannlegri sköpun og möguleikum listamanna til að afla sér lífsviðurværis með sköpun sinni”.
Sömuleiðis fordæmir Rithöfundasamband Íslands ákvörðun Meta um að nýta hugverk, þar á meðal eftir íslenska höfunda, án heimildar, til þróunar á gervigreindarforriti. Slíkt feli í sér tilvistarlega aðför að listsköpun og ritstörfum.
Einnig fordæmir sambandið hugmyndir, m.a. frá Bretlandi, um að veita tæknifyrirtækjum óheftan aðgang að hugverkum í sambærilegum tilgangi án skýrs samþykkis listamanna í hverju tilviki.