Hvað er meira sumarlegt en djúsí kartöflusalat? Enn betra ef það er gert úr heilnæmum hráefnum. Hér er komin frábær uppskrift sem kemur úr smiðju Hildar Ómars sem er snillingur að búa til heilnæma og holla rétti.
Sósan er úr kasjúhnetum sem er tær snilld. Salatið inniheldur svo bæði mjúka og stökka áferð, súrt og salt bragð og litina sem segja að það sé komið sumar.
Ferskt kartöflusalat með sinnepssósu
- 6 lífrænar kartöflur, þessar rauðu stóru (ca 400 gr eftir suðu)
- 10 radísur
- 1 rauð paprika
- 1 lítill rauðlaukur (lífrænu eru litlir) eða 1/2 stór (eða eftir smekk)
- 2 msk. kapers
- 3-4 sólþurrkaðir tómatar, án olíu
- 1 dl gróft hökkuð íslensk steinselja (geymið smá til að skrauts)
- 1-2 lúkur af dökkgrænu káli, babyleaf eða klettasalat
Sinnepssósan
- 1 dl kasjúhnetur, Hildur notar brotnar lífrænar frá Rapunzel
- 2 tsk. sinnep, Hildur notar lífrænt sinnep sætað með smá agave
- 2-3 tsk. gulur laukur
- safi úr 1 límónu
- 2 litlar súrar gúrkur eða 1 stór
- 3/4 tsk. svart salt
- 1,5 dl vatn
Aðferð:
- Gufusjóðið eða sjóðið kartöflurnar þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn.
- Komið þeim svo fyrir í ísskáp þar til þær eru orðnar kaldar.
- Skerið kartöflurnar, grænmetið og steinseljuna smátt og komið öllu fyrir í stóra skál.
- Útbúið sósuna með því að setja allt sem í hana fer í lítinn blandara eða græju sem nær að mauka, töfrasproti ætti líka að virka.
- Hellið sósunni útá, hrærið vel og skreytið með steinselju.
- Berið fram með því sem hugurinn girnist og njótið.