Sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa farið í fimm útköll frá miðnætti, sem er óvenju mikið þar á bæ.
Rétt upp úr klukkan eitt í nótt barst neyðarlínunni tilkynning frá fólki sem hafði verið á siglingu í miðjum Seyðisfirði á litlum skemmtibát. Bátnum hafði hvolft og hafði fólkið sem var um borð, fimm manns, komist á kjöl bátsins, að því er kemur fram í tilkynningu.
Björgunarbátar sjósettir
Við þessu útkalli brugðust björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði sem sjósetti björgunarbát, björgunarskipið Hafbjörgu í Neskaupstað, auk smærri björgunarbáts björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar var einnig kölluð út.
Um tuttugu mínútum eftir útkallið var búið að bjarga öllum skipverjum um borð í björgunarbát Ísólfs, Árna Vilhjálmsson, og var þá öðrum snúið við, skipum, bátum og þyrlu. Fólkið var flutt í land og varð því ekki meint af þessu óhappi. Áhöfn Árna Vilhjálms fór síðan aftur á slysstað og náði að koma bátnum á réttan kjöl og draga til hafnar. Aðgerðum á Seyðisfirði var lokið upp úr þrjú í nótt.
Fjögur útköll í viðbót
Í morgunsárið bárust svo með skömmu millibili fjögur útköll vegna strandveiðibáta í vandræðum.
Það fyrsta var vegna báts á Faxaflóa, skammt undan Syðra-Hrauni, sem hafði orðið fyrir vélarbilun. Skipverji þurfti að drepa á vél bátsins ella hefði sjór flætt inn. Björgunarbáturinn Margrét Guðbrands frá Björgunarfélagi Akraness tók bátinn í tog.
Í vanda í Ísafjarðardjúpi
Aðeins rúmlega tíu mínútum síðar barst útkall vegna báts í Ísafjarðardjúpi sem var án vélarafls. Björgunarsveitin Kofri fór í það verkefni á nýjum björgunarbát sveitarinnar, Svan.
Klukkutíma síðar, eða rétt upp úr klukkan átta, barst beiðni frá litlum fiskibát í mynni Patreksfjarðar, enn á ný vegna vélarbilunar. Björgunarskipið Vörður II hélt þegar út til aðstoðar og tók bátinn í tog í þéttri þoku.
Um níuleytið í morgun barst svo fimmta útkallið þegar áhöfn Hannesar Þ Hafstein, björgunarskipsins í Sandgerði, var kölluð út vegna lítils fiskibáts sem staddur var vestur af Syðra-Hrauni með bilaða vél.
„Í þeim tilvikum, utan atviksins í Seyðisfirði, var ekki bein hætta á ferðum, en vissulega er það óvenjulegt að á sama tíma séu fjögur skip félagsins á sjó, með báta í togi á leið til hafnar,“ segir í tilkynningunni.