mán. 19. maí 2025 19:09
Leikstjórinn og leikarinn Mariska Hargitay er stödd á kvikmyndahátíðinni í Cannes um þessar mundir vegna heimildamyndarinnar
Lifði í lygi allt sitt líf

Leikkonan Mariska Hargitay, úr Law & Order: Special Victims Unit, hefur ljóstrað leyndarmáli í heimildamyndinni My Mom Jayne, sem hún hélt leyndu í yfir 30 ár. 

Í myndinni kemur fram að Mickey Hargitay sé ekki líffræðilegur faðir hennar heldur ítalski söngvarinn Nelson Sardelli. 

„Hann var mér allt, átrúnaðargoðið mitt. Hann elskaði mig svo mikið, og ég vissi það,“ segir hún í viðtali við Vanity Fair um uppeldi Mickey.

Að lifa í lygi

Sannleikurinn um faðerni Marisku dró hana ofan í holu vegna þess að henni leið sem hún „hefði lifað í lygi allt sitt líf“.

Móðir Marisku, Jayne Mansfield, sótti um skilnað frá Mickey árið 1963. Playboy-kanínan fyrrverandi, sem var á hátindi frægðarinnar á sjötta áratugnum, átti síðan í ástarsambandi við ítalska söngvarann og varð ólétt að Marisku.

Á meðgöngunni tók hún aftur saman við Mickey og eignaðist síðan Marisku árið 1964. Mariska segist hafa fundið út sannleikann um raunverulegan föður sinn þegar hún sá mynd af Nelson, hins vegar neitaði Mickey sögunni þegar Mariska bar hana upp við hann.

Það var svo á tónleikum Nelsons í Atlanta, sem Mariska var viðstödd, að hún nálgaðist hann með sannleikann en sagði um leið að hún þarfnaðist einskis frá honum, því hún ætti föður. 

„Það var eitthvað varðandi tryggð. Ég vildi vera heiðarleg gagnvart Mickey.“

Page Six

til baka