mán. 19. maí 2025 14:28
Ís á góðviðrisdögum þykir fullorðnum jafnt sem börnum gott að gæða sér á.
Sólin breytir neysluhegðun: „Lifnar yfir landanum“

Valdimar Sigurðsson, forstöðumaður rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði, segir sólskinið hafa töluverð áhrif á neysluhegðun Íslendinga. Er þetta eitthvað sem verslunarfólk er meðvitað um og dæmi eru um að verð hækki á ákveðnum vörum þegar veðrið er gott.

„Þegar birtir til lifnar yfir landanum, það er alveg ljóst. Fólk verður í betra skapi, fer út að borða, grilllyktin leggst yfir hverfin og sala á sumarvörum rýkur upp,“ segir Valdimar í samtali við mbl.is.

Veðrið hefur áhrif á hvernig fólk hugsar um peninga og hvað það telur nauðsynlegt að kaupa. Sólríkt veður hvetur fólk til að eyða meira í hluti sem tengjast útiveru og sumarstemningu t.a.m. ís, grillkjöt, útihúsgögn og jafnvel reiðhjólahjálma.

„Það eru vörur sem fólk hefði ekki endilega keypt ef það væri skýjað og kalt,“ segir Valdimar.

Sólskinið ákveðið markaðstækifæri

Valdimar bendir á að verslunar- og markaðsfólk sé vel meðvitað um þessi áhrif veðurs á hegðun neytenda. Margar verslanir stilla upp sumarvörum við innganga um leið og sól fer að skína og viðbúið er að sölutölur breytist.

Hefur þetta líka áhrif á verðlagningu og segir Valdimar að dæmi séu um að gosdrykkjakælar hækki sjálfkrafa verð á drykkjum þegar hitastigið hækkar.

„Þetta sýnir bara hvernig markaðurinn spilar inn á veðrið. Það er hins vegar spurning hversu siðlegt það er, en ég hef ekki rekið augun í þetta lengi,“ segir hann.

 

Mikilvægt er að góða veðrið komi snemma

Gott veður snemma sumars getur haft áhrif á fjölda fyrirtækja. Ef sólardagar koma ekki fyrr en í ágúst getur það einfaldlega verið of seint fyrir mörg fyrirtæki sem selja sumarvörur, því íslenskt sumar er stutt.

„Tækifærið til að selja tjöld, grill og útivistarfatnað er þá búið að renna sitt skeið,“ segir Valdimar.

Mikið sólskin hérlendis getur líka haft neikvæð áhrif á sölu utanlandsferða. Flugfélög og ferðaskrifstofur bregðast iðulega við leiðinlegu veðri með sérherferðum en þegar veðrið lokkar fólk til útiveru hér heima minnkar þörfin fyrir að flýja landið.

Að lokum segir Valdimar að lykillinn að árangursríkri markaðssetningu felist í því að vera undirbúinn, hvort sem sólin skín eða ekki. „Þeir sem eru tilbúnir og geta brugðist hratt við veðurbreytingum eru þeir sem ná mestum árangri. Þú getur stjórnað mörgu í markaðssetningu en þú stjórnar ekki veðrinu.“

til baka