mán. 19. maí 2025 10:26
Fyrirtækið Eyrarkláfur áformar að setja upp kláf sem gangi frá þéttbýlinu á Ísafirði upp á Eyrarfjall ofan við bæinn sem er um 700 m hátt.
Fyrirhugaður kláfur án fordæma hér á landi

Skipulagsstofnun segir að kláfur sem fyrirtækið Eyrarkláfur ehf. áformar að leggja upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar og byggingar á toppi fjallsins séu án fordæma hér landi.

Stofnunin hefur veitt álit á umhverfismatsáætlun Eyrarkláfs um framkvæmdirnar og segir að þær verði að langmestu leyti á óröskuðu svæði í hlíðum Eyrarfjalls og uppi á fjallinu í mikilli nálægð við þéttbýlið á Ísafirði.

Leggur Skipulagsstofnun áherslu á mikilvægi þess að umhverfismat feli í sér að birtar verði ljósmyndir frá tilteknum sjónarhornum sem sýni núverandi aðstæður á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og síðan verði fyrirhugaðar framkvæmdir færðar inn á ljósmyndirnar til að freista þess að sýna ásýndarbreytingar með tilkomu framkvæmdanna. „Stofnunin hefur ekki góða reynslu af svokölluðum tölvugerðum þrívíddarmyndum,“ segir síðan í álitinu.

Telur Skipulagsstofnun að einkum byggingar á toppi Eyrarfjalls kunni að hafa áhrif á óbyggð víðerni og tekur undir með Náttúrufræðistofnun að í umhverfismatsskýrslu þurfi að fjalla um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á óbyggð víðerni.

Eyrarkláfur ehf. áformar að setja upp kláf með 300 fermetra byrjunarstöð í þéttbýlinu á Ísafirði neðan Eyrarfjalls sem er um 700 metra hátt, með einu millimastri á Gleiðarhjalla sem er í um 390 metra hæð yfir sjávarmáli og 2-300 fermetra endastöð uppi á fjallinu. Í tengslum við endastöðina er fyrirhugað að reisa um 7-800 fermetra móttökusal og veitingastað.

Gert er ráð fyrir uppsetningu tveggja kláfa sem munu ganga hvor á móti öðrum og að þeir geti annað um 500 manns á klukkustund. Gert er ráð fyrir að hvor kláfur sé 3 metra breiður, 5 metra langur og 3 metra hár. Lengd á kláfavírnum er 750 metrar frá byrjunarstöð að Gleiðarhjalla og 710 metrar frá Gleiðarhjalla upp á Eyrarfjall og verður mesta hæð vírsins um 30 metrar. Einnig er gert ráð fyrir bílastæði fyrir 20 bíla og 2 rútur og 100 metra löngum aðkomuvegi að byrjunarstöð kláfsins. 

til baka