mán. 19. maí 2025 12:03
Veður hefur verið með besta móti um allt land seinustu daga.
Svalara loft í augsýn

„Það er útlit fyrir að í lok vikunnar fari hlýindi að hörfa. Margt bendir svo til þess að svalara loft verði í næstu viku, ekkert bendir til annarrar hitabylgju að minnsta kosti.“

Þetta segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Hæð beint yfir landinu

Veðrið seinustu daga hefur verið með besta móti um allt land. Birgir segir að sérstakar aðstæður þurfi að vera til staðar til þess að veður sé svo gott um land allt. 

„Það er hæð sem hefur verið yfir Færeyjum síðastliðna daga en þessa stundina er þessi hæð bara beint yfir Íslandi. Vanalega þegar það eru hlýindi hérlendis þá er hæð yfir Bretlandseyjum og þarf þá loftið að ferðast langa leið til okkar og nær að kólna örlítið á leiðinni. Nú fær heita loftið í raun ekki tækifæri til þess að kólna neitt,“ bætir Birgir við.

Breyting í kortunum

Birgir segir að útlit sé fyrir að veðrið haldi áfram að leika við landsmenn næstu daga en að ákveðin breyting þar á sé í kortunum síðdegis á fimmtudag. 

„Síðdegis á fimmtudag og í framhaldinu eru líkur á því að það verði fremur vætusamt og hitastigið verður nær venjulegu hitastigi maímánaðar.“

Þriðja hæsta hitastig frá upphafi

Greint var frá því í gær að hæsta hitastig sem mældist þann daginn á landinu hafi verið 25,1 gráða í Stafholtsey í Borgarfirði. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/05/18/litlu_munadi_ad_hitamet_maimanadar_fra_1960_felli/

Uppsveitir Borgarfjarðar eru að sögn Birgis ekki óþekktar slóðir fyrir hátt hitastig en hann bætir þó við að síðustu ár hafi hitatölur yfirleitt verið hæstar á Norður- eða Austurlandi. 

Einar Sveinbjörnsson, annar veðurfræðingur sem mbl.is ræddi við, segir þetta þriðja hæsta hitastig sem mælst hefur í Stafholtsey frá upphafi mælinga. 

„Það hefur verið mældur hiti þar í 37 ár og þetta er langhæsti hiti sem mælst hefur þar í maí. Það hefur bara mælst hærri hiti þar tvisvar sinnum áður, það er í águst 2004 og í júlí 1991,“ segir Einar.

 

til baka