Útskriftarnemendur úr Hússtjórnarskólanum í Reykjavík klæddust glæsilegum íslenskum þjóðbúningum við útskrift úr skólanum í síðustu viku. Vani er að nemendur klæði sig upp á fyrir daginn en nemendur ákváðu að taka það skrefinu lengra að þessu sinni.
Fyrr á önninni kom upp sú umræða á meðal nemenda um hvers vegna í ósköpunum Íslendingar klæddu sig ekki meira upp í þjóðbúninga. Nágrannar okkar í t.d. Noregi og Svíþjóð eru duglegir að klæða sig í sína en íslendingar ekki alveg jafn oft.
Nemendur tóku því höndum saman og ákváðu að ef einhver tími væri til þess að klæðast íslenska þjóðbúningnum þá væri það við útskrift sína úr Hússtjórnarskólanum. Búningurinn er svo einstaklega klæðilegur og handverkið glæsilegt að það þótti vel við hæfi, sérstaklega þar sem skólinn leggur mikið upp úr íslensku handverki.
Nemendur gátu margir hverjir nálgast þjóðbúning hjá fjölskyldu sinni fyrir útskriftardaginn en einn nemandi saumaði sér upphlut hjá Heimilisiðnaðarfélaginu og aðrir leigðu hjá Þjóðdansafélaginu.
Að útskrift lokinni gerðu nemendur sér glaðan dag meðal annars með skrúðgöngu niður í bæ og happy hour á Iðnó.