mán. 19. maí 2025 21:00
Leó Snæfeld barþjónn hjá Jungle sigraði World Class-barþjónakeppnina hérlendis í ár og ætlar sér að sigra aðalkeppnina sem fram fer í Toronto í haust.
„Ég ætla að vinna þessa keppni“

Leó Snæfeld barþjónn hjá Jungle sigraði World Class-barþjónakeppnina hérlendis í ár og mun keppa í alþjóðlegu keppninni fyrir Íslands hönd sem mun fara fram í Toronto í Kanada í haust.

Hann fagnaði sigrinum ákaft og var vel að honum kominn. Hann segist vera til í slaginn út í Toronto og ætlar að sigra keppnina og ekkert minna.

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/05/15/leo_sigradi_world_class_barthjonakeppnina_med_glaes/

Nú hefur World Class-barþjónakeppnin staðið yfir frá því í febrúar. Hvað fannst þér erfiðasta áskorunin í keppninni í ár?

„Án efa erfiðasta var Johnnie Walker-áskorunin, þar sem við þurftum að smíða okkar eigin pop-up bar á 2m x 2m í tengingu við list eða tísku. Ofan á það þurfti drykkurinn að vera tengdur viðfangsefninu sem maður valdi og hafa það augljóst að þau hráefni hafi verið innblásin af viðfangsefninu. Ég skipti um skoðun hvað ég ætlaði að gera, alveg 4 sinnum,“ segir Leó og glottir.

„Don Julio hyper local áskorunin var þar sem ég lærði eitthvað alveg nýtt. Ég fékk aðstoð frá vini og fyrrum vinnufélaga, Matthew Gayowski frá ÓX, þar sem hann kenndi mér að vinna með Koji. Þessi sveppur sem leggst á hráefni og brýtur niður sterkju í sykur hefur alveg opnað heiminn minn hvernig hægt er að koma umami í drykki,“ bætir Leó við.

 

Eins og að taka heila önn í háskóla

Hvað finnst þér World Class-keppnin hafa gert fyrir barþjónasamfélagið?

„Þessi keppni er eins og að taka heila önn í háskóla, þar sem aðeins ein manneskja fær að fara áfram í framhaldsnám í útlöndum. Þetta myndar eldmóð meðal barþjóna og ýtir mörgum yfir getu. Eins og dýr sem þarf að stökkbreytast til að lifa af í náttúrunni þá gerir þetta það sama fyrir okkur. Þessi keppni opnar hug okkar í að hugsa út fyrir kassann og bæta okkur betur sem fagfólk. 

Ég sjálfur lifi fyrir keppni og leiki. Hún hjálpar mér að sjá hvar ég stend á mínum ferli og hvar ég get bætt mig.“

Ein af áhugaverðustu nándaráskorunum sem Leó þurfti að takast á við var með Don Julio og hann þurfti að velja íslenskt hráefni sem var innan 15 km radíus frá barnum sem hann starfar á, Jungle bar.

„Ég notaðist við einn af mínum uppáhalds hlutum í heiminum, ís. Ég elska ís og einn af mínum uppáhalds er frá Gaeta Gelato. Allt frá bragði til áferðar hjá þeim er til fyrirmyndar. Ég ákvað að taka ísinn og blanda honum með smá vatni, sérríi og mjólkursýrum til að skipta honum. Þar næst setti ég vökvann í gegnum kaffifilter og notaði glæra ísmysu til að sýrustilla drykkinn.“

Lagði til hjálpar hönd við að opna Ömmu Don

Hvað er langt síðan þú byrjaðir að starfa sem barþjónn og á hvaða stöðum hefur þú unnið?

„Ég er búinn að vera í þessu fagi síðan ég var 16 ára. Byrjaði í framreiðslunámi í Hótel og matvælaskólanum í Kópavogi og fór á samning hjá Bláa lóninu. Eftir útskrift flyt ég til London og vinn hjá Drink Factory í tvö ár þar sem ég læri að hugsa út fyrir kassann.

Eftir að ég flyt aftur heim tek ég við yfirmannsstöðu á Sumac hjá honum Þránni. Ég legg Þránni hjálparhönd í að opna flottasta „speak-easy“ bar landsins, sem ber heitið Amma Don, samhliða nýja ÓX, Michelin-stjörnu-veitingastaðnum sem staðsettur er á Laugaveginum.

Eftir að hafa sett línurnar þar færði ég mig yfir á Jungle bar við Austurstræti, þar sem mér fannst ég ekki vera nógu hraður barþjónn og varð ég að bæta það með að vera á constant kokteil keyrslu. Ég er alveg að finna mig upp á nýtt meðal þeirra.“

Mun fara mikill tími í undirbúning fyrir World Class í Toronto eða ertu klár í slaginn?

„Þegar ég verð ekki að vinna verð ég að æfa mig og hugsa um þessa keppni. Ég er klár í slaginn, ég ætla að vinna þessa keppni. Þetta er allt hugarástand, og ég ætla að sýna restinni af heiminum að þó að við séum lítil þjóð að þá heyrist mjög hátt í okkur.“

 

„Munið að drekka aðeins í hófí“

Leó gefur lesendum matarvefsins tvær góðar uppskriftir að kokteilum sem steinliggja í veðurblíðunni þessa dagana og bætir þó við að vert sé að ganga hægt um gleðinnar dyr.

„Passið upp á ykkur sjálf og þá sem ykkur eru nánust. Munið að drekka aðeins í hófi og ef þið getið það ekki, þá er kannski kominn tími til að setja flöskuna á hilluna og leita sér hjálpar.“

Siren Song

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í kokteilahristara og hrærið vel í blöndunni.
  2. Hellið síðan blöndunni í kokteilaglas og toppið með Grapefruit twist.

Baby-Don Eyes

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í kokteilahristara og hristið vel.
  2. Streinið í kokteilaglas og skreytið með kirsuberi á priki.
til baka