„Skylda okkar er sú að auglýsa til umsóknar þær lóðir innan þjóðlendna í sveitarfélaginu sem nýta má. Eðlilega hljóta þeir sem þar eru fyrir með starfsemi þó að hafa ákveðna forgjöf,“ segir Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri í Rangárþingi í eystra.
Sveitarfélagið auglýsti á dögunum úthlutun lóða í Langadal og Húsadal í Þórsmörk, á Goðalandi og í Efri-Botnum í Emstrum, sem eru við Nyrðri-Fjallabaksleið. Í Þórsmörk eru undir tvær lóðir sín í hvorum dalnum og þar eru skálar, byggingar og starfsemi á vegum Ferðafélags Íslands, sem einnig er með aðstöðu og starf í Emstrum. Má þess og geta að Ferðafélag Íslands stefnir að því að reisa á næstu misserum nýja byggingu í Langadal. Þar er Skagafjörðsskáli, bygging sem komin er til ára sinna og orðin feyskin svo þægilegast þykir að reisa aðra í sama stíln.
Útivist á skála og heldur úti starfsemi á Básum á Goðalandi og leigir þar tæplega 10 hektara svæði.
„Ferðafélögin eiga byggingar og mannvirki á þeim þjóðlendulóðum sem við auglýsum nú. Fengju aðrir lóðirnar gæti því komið til uppkaupa á þeim mannvirkjum sem þarna eru fyrir. Allt er þetta því háð heilmiklu regluverki. Gagnvart sveitarfélaginu snýr þetta þannig að greitt er leigugjald. Slíkt eru peningar sem skylt er að nýta til uppbyggingar á viðkomandi þjóðlendusvæði, svo sem til stígagerðar eða annarra umhverfisbóta,“ segir sveitarstjórinn.
Frestur til að skila inn umsóknum um lóðirnar á fyrrgreindum svæðum er til og með 1. júní. Þetta er þó aðeins fyrsti hlutinn, því um mitt sumar verða auglýstar lausar til umsóknar fjórar lóðir í Húsadal og jafn margar á Goðalandi. Þær eru óbyggðar en deiliskipulagðar og segist sveitarstjórinn greina talsverðan áhuga fyrirtækja í ferðaþjónustu á að festa sér þær og koma sér þannig upp aðstöðu á Þórsmerkursvæðinu.