mán. 19. maí 2025 08:45
Róbert Wessman forstjóri.
Hefja viðskipti með bréf Alvotech í Stokkhólmi

Viðskipti með hluti í Alvotech hefjast í dag á Nasdaq markaðnum í Stokkhólmi. Félagið verður skráð í Stokkhólmi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Skráningu Alvotech í kauphöllina í Stokkhólmi er ætlað að auka sýnileika félagsins hjá markaðsaðilum í Skandinavíu og Evrópu, auka viðskipti með hluti í félaginu og breikka hluthafahópinn. Bréf Alvotech verða nú skráð samhliða á þremur aðalmörkuðum, Nasdaq í Bandaríkjunum, Nasdaq á Íslandi og Nasdaq í Stokkhólmi.

„Við lítum á skráninguna í Stokkhólmi sem þjónustu við núverandi hluthafa eða þá sem hyggjast fjárfesta í félaginu og að hún muni stuðla að auknum viðskiptum með bréf í félaginu. Hlutabréfamarkaðurinn í Stokkhólmi er einn sá stærsti í Evrópu, sérstaklega í viðskiptum með bréf fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum. Skráning Alvotech á Nasdaq í Stokkhólmi mun stuðla að því að breiðari hópur markaðsaðila í Skandinavíu og Evrópu sem fjárfesta í líftækni- og lyfjafyrirtækjum kynnist Alvotech og geti fjárfest í félaginu. Viðbrögð markaðsaðila sem við höfum fundað með að undanförnu og umframeftirspurn í útboðinu sem lauk í síðustu viku, bendir til mikils áhuga,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.

Útboð í tengslum við skráningu félagsins á markaðinn í Stokkhólmi, sem náði aðeins til fjárfesta í Svíþjóð, lauk föstudaginn 16. maí sl. Mikill áhugi var meðal almennra fjárfesta á að eignast hluti í Alvotech og eftirspurn margföld á við framboð. Alls fengu meira en 3.000 nýir hluthafar afhent sænsk heimildarskírteini (SDR), sem eru ígildi hlutabréfa í Alvotech. Í boði voru 441.600 SDR. Gengi í útboðinu var 1.167,8 krónur (87,51 sænskar), sem jafngildir 90% af vegnu meðalverði hluta í Alvotech á útboðstímabilinu, 9.-16. maí.

til baka