mán. 19. maí 2025 08:23
Willum Þór, nýkjörinn forseti ÍSÍ, þakkar fyrir stuðninginn.
Afar þakklátur fyrir kjörið

Willum Þór Þórsson var kjörinn forseti Íþróttasambands Íslands á þingi sambandsins á laugardag. Kjör hans var nokkuð afgerandi en af þeim 145 sem voru á kjörskrá greiddu 109 honum atkvæði sitt.

Auk Willums voru í framboði þau Brynjar Karl Sigurðsson, Magnús Ragnarsson, Olga Bjarnadóttir og Valdimar Leó Friðriksson. Olga varð önnur í kjörinu með 20 atkvæði, Magnús hlaut 9 atkvæði, Valdimar þrjú og Brynjar Karl fékk ekkert atkvæði.

Afar þakklátur fyrir kjörið

Willum kveðst afar þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem honum hafi verið sýndur með kjörinu og er hann jafnframt fullur tilhlökkunar vegna þess fjölda verkefna sem nú bíði hans.

„Verkefnin eru mýmörg og stór en sem dæmi þá var strax mikil gleðistund í gær þegar Valskonur hlutu Evrópumeistaratitil og fékk ég að taka þátt í því að afhenda verðlaunin sem var afskaplega gleðilegt. Það eru einmitt augnablik sem þessi sem draga okkur flest að íþróttunum,“ segir Willum í samtali við Morgunblaðið.

Á morgun hefst svo fundur um aðkomu og stuðning sveitarfélaganna við íþróttastarfsemi auk nýrrar afreksstefnu en Willum segir mikið ákall um að efla samvinnu þvert á hreyfinguna. Svo sé auðvitað eitt helsta markmiðið að bæta aðbúnað fyrir iðkendur á alla vegu en til þess að það verði að veruleika þurfi að eiga sér stað ríkara samtal milli íþróttahreyfingarinnar og stjórnvalda.

 

 

 

til baka