mán. 19. maí 2025 07:27
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútin, forseti Rússlands.
Trump ræðir við Pútín til að knýja á um vopnahlé

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín, forseti Rússlands, munu ræða saman símleiðis í dag en Trump hefur lagt aukinn þrýsting á Putin að binda enda á stríðið sem hófst með innrás Rússa Úkraínu fyrir þremur árum.

Trump hét því í kosningabaráttunni að hann ætlaði að stöðva stríðið á innan við sólarhring en diplómatískar tilraunir hans hafa hingað til skilað litlum árangri.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/05/17/raedir_vid_leidtogana_i_von_um_frid/

Sendinefndir frá Rússlandi og Úkraínu áttu beinar samningaviðræður í Istanbúl í Tyrklandi síðustu viku í fyrsta skipti í tæp þrjú ár, en viðræðunum lauk án skuldbindinga um vopnahlé.

Eftir samningaviðræðurnar tilkynnti Trump að hann myndi tala símleiðis við Rússlandsforseta í því skyni að binda enda á „blóðbaðið“ í Úkraínu, sem hefur eyðilagt stór svæði landsins og flutt milljónir manna á vergang.

Trump hefur haldið því fram að ekkert muni gerast í málunum fyrr en hann hittir Pútín augliti til auglitis en Pútín hafnaði boði Volodimírs Selenskí Úkraínuforseta um að koma til fundar við sig í Istanbúl í síðustu viku. 

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/05/16/fridarfundi_slitid_i_istanbul/

Í viðræðunum í Istanbúl náðu Rússar og Úkraínumenn samkomulagi um fangaskipti og skiptust á hugmyndum um hugsanlegt vopnahlé en án áþreifanlegrar skuldbindingar.

Helsti samningamaður Úkraínu, Rustem Umerov, varnarmálaráðherra, sagði að „næsta skref“ væri fundur Pútíns og Selenskís en vestrænir bandamenn Úkraínu hafa sakað Pútín um að hunsa ákall um vopnahlé.

 

 

 

 

til baka