Japanski áfengisrisinn Asahi kennir vaxandi framboði stafrænnar afþreyingar um að jafnt og þétt hefur dregið úr sölu áfengis.
FT fjallaði um helgina um þróun áfengismarkaðarins, en mælingar og spár benda til þess að áfengisneysla fari smám saman minnkandi, og virðist neyslan hafa dregist hraðast saman hjá yngstu kynslóðunum. Bæði framleiðendur og fjárfestar leita skýringa á þessari þróun enda gæti það haft mikið að segja um sölu áfengis á komandi árum hvort rekja megi minnkaða neyslu til heilsuvitundar, breyttra lifnaðarhátta, aðhalds í heimilisrekstri eða annarra þátta.
Drekka minna en dýrara
Áfengissala á heimsvísu dróst saman um 1% árið 2023, mælt í magni, en tekjur greinarinnar jukust um 2% þar eð neytendur sóttu í vaxandi mæli í dýrara áfengi af meiri gæðum.
Í viðtali við FT fullyrðir Atsushi Katsuki forstjóri Asahi að minnkandi áfengissala skrifist ekki hvað síst á þá staðreynd að alls kyns stafræn afþreying, s.s. streymisveitur og tölvuleikir, keppi með beinum hætti við áfengi. Fólk geti átt gleðistund með vín um hönd, en líka spilað tölvuleik eða horft á kvikmynd til að stytta sér stundir.
Þá óttast sumir að vinsældir megrunarlyfja á borð við Ozempic kunni að minnka áfengissölu enn frekar, enda hafi lyfin þau áhrif að draga úr matvælaneyslu fólks og geti þar með minnkað áfengisneyslu þeirra sem ella hefðu fengið sér vín eða bjórglas með matnum. Asahi bendir þó á að megrunarlyfin geti þvert á móti haft þau áhrif að fólk í ofþyngd sem þurfti áður að forðast áfengi vegna heilsuvandamála geti farið að leyfa sér að drekka áfengi á ný ef heilsan batnar hjá þeim við þyngdarmissinn.
ai@mbl.is