mán. 19. maí 2025 06:00
Kwame Quee er kominn á fornar slóðir í Ólafsvík og skoraði fyrir Víkingana gegn KFA.
Þróttarar á toppnum með fullt hús

Þróttur úr Vogum er með fullt hús stiga á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu eftir þriðju umferðina sem lauk í gær.

Þróttarar lögðu Víðismenn, 2:0, í Suðurnesjaslag í Garðinum á föstudagskvöldið þar sem Rúnar Ingi Eysteinsson og Eyþór Orri Ómarsson skoruðu í síðari hálfleiknum. Þróttur er því með níu stig eftir fyrstu þrjá leikina og Auðun Helgason fer vel af stað í endurkomu sinni sem þjálfari. Víðismenn eru hins vegar aðeins með eitt stig.

KFA og Víkingur frá Ólafsvík skildu jöfn á Reyðarfirði, 1:1, og eru áfram taplaus, KFA með 7 stig og Ólsarar með 5. Marteinn Már Sverrisson kom KFA yfir strax á 2. mínútu en Kwame Quee jafnaði fyrir Víkinga aðeins fimm mínútum síðar og þar við sat.

Grótta vann sinn fyrsta leik í gær, 2:1 gegn Kára í Akraneshöllinni. Máni Berg Ellertsson kom Kára yfir en Björgvin Brimi Andrésson og Caden McLagan svöruðu fyrir Gróttu. Þar með er Grótta með 4 stig en Kári með 3 stig.

Dalvík/Reynir fór illa með Hött/Hugin, 4:0, á Dalvík. Sindri Sigurðarson, Áki Sölvason og Martim Cardoso skoruðu í fyrri hálfleik og Remi Marie Emeriau innsiglaði sigur heimamanna í uppbótartíma. Dalvík/Reynir er með 4 stig en Höttur/Huginn aðeins eitt.

Haukar fóru í stutta ferð yfir í Garðabæ og unnu þar KFG 4:1. Haukur Darri Pálsson skoraði tvö mörk fyrir Hauka, Eiríkur Örn Beck og Daði Snær Ingason eitt hvor en Guðmundur Thor Ingason svaraði fyrir KFG rétt fyrir leikslok. Haukar eru með 7 stig í þriðja sæti en KFG er með eitt stig á botninum.

Jordan Aeyemo skoraði þrennu fyrir Ægi sem vann Kormák/Hvöt, 3:1, í Þorlákshöfn. Kristinn Bjarni Andrason skoraði mark Húnvetninga. Ægir er með 4 stig og Kormákur/Hvöt er með 3.

til baka