Knattspyrnumaðurinn Elías Már Ómarsson lauk keppnistímabilinu í Hollandi á skemmtilegan hátt í gær þegar lið hans, Breda, gerði jafntefli, 1:1, við Willem II á heimavelli í lokaumferð úrvalsdeildarinnar.
Elías skoraði mark Breda í leiknum og skoraði þar með 8 mörk í 32 leikjum fyrir Breda á tímabilinu og endaði sem markahæsti leikmaður liðsins.
En markið gegn Willem II var sögulegt því þetta var 100. deildamark Keflvíkingsins í 322 leikjum á ferlinum.
Elías hóf meistaraflokksferilinn með uppeldisfélaginu Keflavík og skoraði 8 mörk í 37 leikjum í íslensku úrvalsdeildinni á árunum 2012-2014, en síðan hélt hann í atvinnumennsku.
Frá þeim tíma hefur hann skorað 92 deildamörk fyrir félög sín, 6 fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni, 14 fyrir Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni og 7 fyrir Nimes í frönsku B-deildinni. Hin 65 mörkin hefur Elías skorað í hollensku deildakeppninni.
Fyrir Excelsior skoraði hann 8 mörk í úrvalsdeildinni og 34 í B-deildinni og fyrir Breda hefur hann skorað 15 mörk í B-deildinni og núna 8 mörk í úrvalsdeildinni.
Mörkin heima og erlendis hjá Elíasi eru því nákvæmlega 100 núna í lok tímabilsins, 8 á Íslandi og 92 erlendis.
Flest mörk á einu tímabili hjá Keflvíkingnum eru 22 sem hann skoraði fyrir Excelsior í hollensku B-deildinni tímabilið 2020-21.
Aðeins sjö íslenskir knattspyrnumenn hafa skorað fleiri deildamörk en Elías fyrir erlend lið en næstir á undan honum á þeim markalista eru Ásgeir Sigurvinsson með 96 mörk og Gylfi Þór Sigurðsson með 99 mörk.