Nicusor Dan, borgarstjóri Búkarest, sigraði forsetakosningarnar í Rúmeníu í dag.
Kosningar voru taldar mikilvægar fyrir stefnu Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins, en Rúmenía á landamæri að Úkraínu.
Forsetakosningar voru haldnar í landinu 24. nóvember þegar Calin Georgescu fékk flest atkvæði. Niðurstöðurnar voru hins vegar dæmdar ógildar vegna ásakana um kosningasvik og afskipti Rússa af kosningunum.
Var Georgescu bannað að taka þátt aftur í kosningunum og var hann jafnframt ákærður fyrir að greina ekki rétt frá fjármögnun á kosningaherferð sinni. Hinn hægrisinnaði George Simion, formaður AUR-flokksins, tók þá við keflinu.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/05/04/george_simion_leidir_i_rumeniu/
„Endurreisn“ Rúmeníu
Dan hlaut rúmlega 54% atkvæða og Simion 46%.
Kjörsókn var um 65% en hún var 53% í fyrri umferð kosninganna sem var haldin 4. maí. Þá var Simion hlutskarpari en báðir frambjóðendur lýstu yfir sigri.
Dan, sem er 55 ára gamall miðjumaður, sagði við stuðningsmenn sína í kvöld að „endurreisn“ Rúmeníu hæfist á morgun.
„Í kosningum dagsins hefur samfélag Rúmena sem vilja alvöru breytingar í Rúmeníu unnið.“
Simion, sem er 38 ára gamall, sagði við stuðningsmenn sína fyrir utan þingið að hann væri nýr forseti Rúmeníu.
Þá hvatti hann fólk á kjörstöðum „að leyfa ekki kosningasvindl“.