sun. 18. maí 2025 20:19
Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Biden með krabbamein

Joe Biden, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hefur greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. 

Í tilkynningu frá skrifstofu Bidens sagði að krabbameinið væri „aggresíft“.

Biden fór til læknis í síðustu viku vegna einkenna þvagfærasýkingar. Læknar fundu þá hnúð á blöðruhálskirtlinum. 

„Á föstudaginn greindist hann með krabbamein í blöðruhálskirtli, sem einkennist af Gleason-stigi 9 með meinvörpum í beinum,“ sagði í tilkynningunni. 

Þá sagði að krabbameinið væri hormónanæmt sem gerir skilvirka meðferð mögulega. 

Biden, sem er 82 ára gamall, og fjölskylda hans fara nú yfir næstu skref varðandi krabbameinsmeðferð.

Sonur Bidens, Beau Biden, lést af völdum heilakrabbameins árið 2015. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

til baka