Bilun í flugturni hefur leitt til þess að aflýsa þurfti 130 flugferðum á Orly-flugvelli í París í Frakklandi.
Talsmaður flugvallarins sagði að aflýsa hefði þurft um 40% af komum og brottförum dagsins.
Flugmálayfirvöld í Frakklandi sögðu að „bilun í flugstjórnarkerfum í flugturninum á Orly síðdegis“ hefði leitt til röskunarinnar.
Heimildir AFP-fréttaveitunnar herma að bilun hefði orðið í ratsjá turnsins.
Óvíst er hvort bilunin muni hafa áhrif á ferðir morgundagsins.