Úkraínumenn segja Rússa hafa gert umfangsmestu drónaárás síðan innrásin hófst í nótt. Árásirnar voru gerðar víða um Úkraínu, meðal annars á Kænugarð þar sem ein kona lést.
Tveir dagar eru síðan fyrstu beinu viðræður um vopnahlé á milli ríkjanna tveggja í meira en þrjú ár fóru fram í Istanbúl í Tyrklandi. Engin niðurstaða varð að fundi loknum.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/05/17/raedir_vid_leidtogana_i_von_um_frid/
Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í viðtali sem birtist í dag að áhersla hans væri að útrýma því sem hann telur rót vandans í Úkraínu og að tryggja öryggi Rússlands.
Flugher Úkraínumanna greindi frá því að Rússar hefðu skotið á loft 273 Shahed-árásardrónum og ýmsum öðrum gerðum. Þar af voru 88 skotnir niður og 128 ollu ekki eyðileggingu.
Júlía Svírídenkó varaforsætisráðherra sagði að um væri að ræða „metfjölda“ af drónum. „Rússland hefur skýrt markmið – að halda áfram að myrða almenna borgara.“
Rússneski herinn greindi frá því að hann hefði grandað 25 úkraínskum drónum í nótt og í morgun.