sun. 18. maí 2025 13:40
Leó páfi og Volodimír Selenskí að messu lokinni.
Páfinn ræddi við Selenskí

Embættistíð Leós XIV páfa hófst með formlegum hætti nú í morgun með hátíðlegri innsetningarmessu á Pét­urs­torg­inu í Vatíkaninu.

Vel var tekið á móti páfa er hann kom til athafnarinnar á hinum svokallaða páfabíl, en um 100.000 manns voru saman komin á Péturstorginu til að fagna innsetningu hans. Mikill fögnuður braust jafnframt út þegar páfinn gerði hlé á för sinni til Péturskirkjunnar til að blessa barn úr hópi áhorfendanna.

Hrópuðu margir í mannfjöldanum orðin „Viva il Papa“, þ.e. lengi lifi páfinn þegar hann steig svo í pontu.

Hitti Selenskí eftir messu

Fór hinn nýi páfi yfir víðan völl í innsetningarpredikun sinni. Ítrekaði hann áhyggjur sínar af stríðinu í Úkraínu í bæn sinni og sagði „píslarvottinn Úkraínu nú bíða eftir réttlátum og varanlegur friði“. 

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti var viðstaddur athöfnina og fór vel á með honum og páfanum. Ræddu þeir stuttlega saman að messu lokinni.

 

Líkur forvera sínum

Þá fordæmdi páfinn arðrán á fátækum um heim allan. Sagði hann jafnframt ekkert rúm vera fyrir óeiningu innan kirkjunnar og vísaði þar til átaka íhaldsamra og frjálslyndra afla innan kirkjunnar í gegnum tíðina.

Predikun Leós endurómaði því að miklu leyti sömu áherslur og Francis, forveri hans predikaði í tíð sinni.

 

Táknrænn gjörningur

Eins og kaþólsku kirkjunni sæmir var guðsþjónustan hin glæsilegasta, en fór hún jafnframt fram samkvæmt aldagömlum reglum um innsetningu páfa. 

Í athöfninni fór meðal annars fram formlega afhending á heilögum táknum embættisins til Leós. Fékk hann t.d. svokallað pallíum, sem er lambsullarskrúði sem tákna á sálgæslu og hlutverk hans sem hirðir kirkjunnar.

 

Þá fékk hann einnig sjómannahringinn, sem táknar vald páfans sem arftaka heilags Péturs sem gjarnan er talinn fyrsti páfinn en hann var sjómaður að atvinnu. 

til baka