Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku banka, segir að sé litið til hagnaðar fyrir skatta séu væntingar bankans þær að hann aukist smám saman frá því sem sést hafi síðustu fjórðunga.
„Með vaxandi útlánasafni gerir bankinn ráð fyrir að stöðugar vaxtatekjur muni aukast í stað sveiflukenndari tekna af tryggingastarfsemi og að þóknana- og aðrar tekjur fari batnandi, sem ásamt áframhaldandi kostnaðaraðhaldi muni gera bankanum kleift að ná markmiðum sínum um að skila 20% arðsemi á efnislegt eigið fé fyrir skatta,“ segir Ármann.
Þrátt fyrir samdrátt í þóknanatekjum var fjórðungurinn í raun einn sá besti sem bankinn hafi skilað og fyrirtækjaráðgjöf lauk sölu TM á fjórðungnum.
„Þóknun fyrir þá vinnu kemur ekki fram í þóknanatekjum þar sem um innanhúss færslu er að ræða en það er ljóst að hefði bankinn ráðið utanaðkomandi ráðgjafa hefðum við þurft að greiða umtalsverða þóknun fyrir það. Þóknanatekjur að meðtalinni þóknun fyrirtækjaráðgjafar fyrir söluna á TM eru því prýðilegar á tímabilinu og væntum við þess að þær haldi áfram að fara batnandi þegar fram líða stundir," segir Ármann.
Hann bendir jafnframt á að þóknanamyndandi einingar hafi þó staðið frammi fyrir töluverðum áskorunum á fyrsta fjórðungi ársins.
„Það er vart ofmælt að um afar óvenjulegt tímabil hafi verið að ræða, sérstaklega á verðbréfamörkuðum í kjölfar Frelsisdagsins í byrjun apríl. Lækkanir á mörkuðum höfðu veruleg áhrif á eignasöfn og aukin óvissa dró úr viðskiptavilja og hægði á ákvarðanatöku. Hlutabréfamarkaðurinn hér heima hefur svo verið í lægð í talsverðan tíma, sem hefur neikvæð áhrif á veltu og þóknanamyndun," segir Ármann.
Spurður um horfur í rekstrinum segir Ármann að Kvika standi talsvert breytt í lok fyrsta ársfjórðungs, eftir söluna á TM, en hann telji að hún hafi heldur aldrei staðið sterkar.
Mikil umbreyting hafi verið á fjárhagslegum styrkleika bankans og öll eiginfjár- og lausafjárhlutföll eru óvenjulega há. Þá eru vaxtatekjur að taka mikið stökk, sem skapi mjög öflugan grunn undir tekjumyndun á sama tíma og sveiflukenndari tekjur af tryggingastarfsemi eru horfnar.
„Það hefur gengið vel að aðlaga kostnaðargrunn bankans að þeirri breytingu sem felst í brotthvarfi TM og í fjórðungnum var ráðist í ýmsar aðgerðir og niðurfærslur sem draga úr kostnaðaraukningu til framtíðar. Þessa sterka stöðu ætlum við að nýta til skynsamlegs vaxtar og við teljum okkur mjög vel undirbúin á öllum sviðum. Við erum byrjuð að sækja stíft fram í fyrirtækja- og fasteignalánum á Íslandi og skipulagsbreytingar í Bretlandi og bætt fjármögnunarstaða hefur lagt grunninn að útlánavexti þar," segir Ármann og bætir við að gert sé ráð fyrir að fyrir lok þessa fjórðungs verði bankinn orðinn þátttakandi á húsnæðislánamarkaði undir merkjum Auðar.
Spurður um áskoranir segir Ármann þær vera ýmsar.
„Við myndum kannski helst nefna þungt regluverk, mikla skattbyrði og veikburða hlutabréfamarkað,“ segir Ármann.
Hann bendir á að regluverkið, sem komi frá Evrópu, sé í grunninn mjög íþyngjandi og ekki smíðað með aðstæður á Íslandi í hugi.
„Síðan hefur heldur verið bætt í, þegar kemur að innleiðingu þessa regluverks hér á Íslandi og loks er eftirlitsvinna FME mjög umfangsmikil, sem kallar á mikla vinnu við gagnasöfnun, skýrslugjöf og fleira hjá fjármálastofnunum. Þetta eykur verulega flækjustigið í rekstri banka hér heima og hækkar kostnaðinn – án þess að endilega auka neytendavernd eða fjármálastöðugleika í samræmi við það. Hlutfallslega er kostnaður vegna regluverksins miklu hærri hér á landi en í stóru löndunum í kringum okkur, en samt er mikið kvartað yfir þessum kostnaði þar," segir Ármann.
Hann segir að álögurnar sem bankar búi við hér á landi séu algjörlega fráleitar. Bankar þurfi að greiða þrjár tegundir af sérsköttum: Bankaskatt af skuldum, 5,5% fjársýsluskatt af launagreiðslum og 6% sérstakan tekjuskatt af hagnaði.
„Þess utan er bindiskylda Seðlabankans, eins og hún er útfærð, í raun ekkert annað en viðbótar bankaskattur," segir Ármann.
Hann bætir við að loks sé það sérstakt áhyggjuefni hversu veikburða íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi verið um nokkurn tíma.
„Almenn þátttaka og verðmyndun hefur alls ekki verið nógu góð. Þetta hefur talsverð áhrif á fjármálafyrirtæki, einkum minni aðila. Stærra mál er þó langtíma áhrifin sem þetta getur haft á íslenskt atvinnulíf. Þjóðhagslega er það mjög mikilvægt fyrir Ísland að hér sé skilvirkur markaður, þar sem öflugustu félög landsins geti sótt fjármagn til fjárfestinga og nýsköpunar. Því teljum við mikilvægt að það verði kannaðar leiðir til að auka áhuga á markaðnum og bæta verðmyndun," segir Ármann að lokum.