Arðsemi eigin fjár hjá Íslandsbanka var 9,4%, sem er undir markmiðum bankans. Ellert Hlöðversson fjármálastjóri Íslandsbanka segir að arðsemin á fyrsta fjórðungi hjá Íslandsbanka hafi litast af tapi á fjármunaliðum, sem rekja megi til aðstæðna á eignamörkuðum á fjórðungnum.
„Þær aðstæður má aftur rekja til óvissu í alþjóðamálum einkum. Undirliggjandi rekstur, lánastarfsemi, vextir og þóknanir voru í góðum takti,“ segir Ellert.
Spurður um horfurnar í rekstrinum segir Ellert að þær séu ágætar.
„Við staðfestum undirliggjandi fjárhagsleg markmið bankans um að vera yfir 10% arðsemi eigin fjár og undir 45% kostnaðarhlutfalli fyrir árið í heild sinni, þótt það megi búist við sveiflum innan ársins. Aðstæður í alþjóðlegu efnahagsumhverfi geta þó haft töluverð áhrif á reksturinn, bæði í gegnum eignamarkaði og annað,“ segir Ellert og bætir við að bankinn hafi nýlega tilkynnt um samstarf við VÍS sem fer mjög vel af stað og fjölmörg sóknartækifæri séu fram undan.
Spurður hverjar séu helstu áskoranirnar sem fjármálafyrirtæki glími við um þessar mundir segir Ellert að þær séu á alþjóðasviðinu.
„Aðstæður á alþjóðamörkuðum eru helsta áskorunin og við fylgjumst vel með stöðu mála,“ segir hann.
Samantekt um horfur í rekstri bankanna má lesa í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.