„Við erum svo ánægðir og þakklátir. Þetta var besti flutningurinn hingað til og við gáfum allt í þetta,“ sögðu bræðurnir Hálfdán Helgi og Matthías Davíð þegar mbl.is hitti þá skömmu eftir að stig Eurovision-úrslitanna voru kunngjörð í gær. „Ég gæti ekki verið stoltari af bróður mínum hérna,“ bætir Hálfdán við.
Líta til baka
„Þetta er bara æðislegt. Bara búið að vera draumur,“ segir Matthías. Þeir fengu tölurnar strax í hendurnar: „Við vorum að fá að vita að við vorum í sjötta sæti á undanúrslitakvöldinu og sautjánda sæti í símakosningunni í kvöld.“
Lagið var fyrir fólkið
„Við gerðum þetta lag ekki fyrir eitthvað lið í jakkafötum,“ útskýrir Hálfdán. „Það var ekki liðið sem við gerðum þetta fyrir. Við gerðum þetta fyrir þjóðina, fyrir fólkið. Og fólkið kaus, og við erum ótrúlega ánægðir.“
Bestu minningarnar
Aðspurðir um það besta við ævintýrið: „Kynnast öllum. Það er svo mikið af meisturum sem eru frá öðrum löndum. Bara hanga með þessu liði og spjalla við það.“
Hvað er fram undan hjá VÆB?
„Það eru tónleikar næstu helgi – við vorum að bæta við aukatónleikum,“ segja þeir og bæta við að ferskt efni sé nú þegar komið frá tvíeykinu: „Við vorum að gefa út lag í dag, Dr. Saxaphone. Gerðum þetta bara á hótelinu fyrir tveimur dögum eða eitthvað - gáfum það bara út.“
„Síðan erum við bara að spila út um allt í sumar.“
Kveðja til Íslands
„Við hlökkum svo mikið til að spila fyrir alla. Þetta eru slæmir dagar fyrir VÆB-hatara. Mér þykir fyrir því. Það er samt ótrúlega skemmtilegt,“ segir Hálfdán og brosir.
Strákarnir bæta við: „Við elskum ykkur öll. Takk fyrir að gefa okkur þetta tækifæri. Svo mikil ást. VÆB elskar ykkur.“
mbl.is þakkar VÆB-bræðrum, íslenska Eurovision-teyminu og lesendum kærlega fyrir samfylgdina í gegnum þetta ævintýri og við kveðjum frá Basel.