Hinn austurríski JJ vann Eurovision í kvöld með laginu „Wasted Love“. Atriðið fékk 436 stig.
Í öðru sæti var Ísrael, með 357 stig, og Eistland í því þriðja, með 356 stig.
Svíum var lengst af spáð sigri en þeir höfnuðu í fjórða sæti með 321 stig.
Ísland hafnaði í næst síðasta sæti, því 25., með 33 stig.
Ellefu ár eru síðan Austurríki unnu síðast en þá var það Conchita Wurst með laginu Rise Like a Phoenix. JJ hefur sagt í viðtölum að Wurst sé mikil fyrirmynd fyrir hann.
Hér má sjá flutning JJ í kvöld.
24 ára og ólst upp í Dúbaí
Johannes Pietsch er 24 ára gamall, en listamannsnafn hans er JJ. Hann fæddist í Vín en ólst upp í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Hann tók þátt í austuríska hæfileikaþættinum Starmania árið 2021 og komst í úrslit. Árið áður hafði hann tekið þátt í bresku keppninni The Voice.
JJ lærði klassískan söng í háskóla í Vín.
Fréttin hefur verið uppfærð.