sun. 18. maí 2025 22:10
Meghann Fahy fer með hlutverk aðkomukonunnar Devon, Julianne Moore leikur hina dularfullu Kiki og Milly Alcock leikur hina undirgefnu Simone.
Ég er ekkert skrímsli!

Í grískri goðafræði eru Sírenur vængjaðar sjávarvættir, raddfagrar söngmeyjar í fuglslíki, er seiða menn til bana með söng sínum. Sumar sagnir töldu þær hafa verið leiksystur Persefónu en er Hades rændi henni hafi þær ekki komið gyðjunni til hjálpar og Demeter þá refsað þeim með því að bregða þeim í fuglsham. Enn aðrir töldu þær hafa hætt sér í sönglistarkeppni við menntagyðjurnar og hlotið refsingu fyrir það.

Út af þessu er lagt í nýjum myndaflokki, Sírenur (e. Sirens), sem kemur inn á streymisveituna Netflix á fimmtudaginn. Við erum þó stödd í nútímanum og sögusviðið er óðal auðkýfinganna Michaelu, sem kölluð er Kiki, og Peters Kells við ströndina á lítilli bandarískri eyju. Ung alþýðukona, Simone DeWitt, vinnur fyrir Kiki og systir hennar, Devon DeWitt, kemur óvænt í heimsókn til að taka stöðuna á systur sinni sem henni þykir vera farin að hegða sér eitthvað undarlega og vera undir óeðlilegum áhrifum frá hinum nýja vinnuveitanda sínum.

„Svo virðist sem systir mín dýrki konuna þína,“ segir Devon við Peter Kell í stiklunni og hann svarar um hæl: „Já, Kiki hefur þau áhrif á fólk.“ Í sömu stiklu sést Simone stinga upp í sig notuðu tyggigúmmíi frá Kiki, þegar óvænt andremma sækir að henni. Hún gerir sum sé allt sem henni er sagt að gera.

Mun Devon takast að tengja á ný við hina glötuðu systur sína eða verður henni hvergi haggað? Hvað er eiginlega á seyði á þessum fallega en dularfulla stað? „Ég er ekkert skrímsli,“ segir Kiki í stiklunni. En hver getur talist marktækur dómari í eigin sök? Er Kiki að bjarga Simone eða draga hana niður í hyldýpið með sér?

Hér hafa konur orðið, öðrum fremur, og í kynningarherferðinni er talað um „skarpa, kynþokkafulla og svartfyndna stúdíu á konum, valdi og stéttaskiptingu“. Boginn sum sé spenntur hátt.

Drama og svartur húmor

Höfundur Sírena er Molly Smith Metzler en byggt er á leikriti hennar frá 2011, Elemeno Pea, og verið er að vinna með drama en um leið svartan húmor. Julianne Moore og Kevin Bacon leika hjónin auðugu og Meghann Fahy og Milly Alcock systurnar. Leikstjóri er Nicole Kassell sem þekkt er fyrir litríkt myndmál og meðal framleiðenda er leikkonan Margot Robbie.

Smith Metzler lýsir Simone og Kiki í miðlinum Tudum sem vinkonum sem knýttar séu saman gegnum áföll sín. „Þær eru meðvirkar, hvor með annarri, um leið og þær þurfa eitthvað hvor frá annarri. Hvað það er tekur breytingum gegnum þættina.“

Hún sér Devon sem taktmælinn í sögunni. „Hún ræður hraðanum, einkum þegar kemur að kómíkinni. Að fá Meghann í hlutverkið var algjör himnasending.“

Smith Metzler segir töggur í sögunni. „Þarna eru mjög dramatísk augnablik og fólki á eftir að líða óþægilega. Ég vil nota orðið óperískur til að lýsa myndaflokknum. Þetta er alvöru svört kómedía – undir áhrifum frá grískri goðafræði.“

Smith Metzler heldur ekki heldur vatni yfir frammistöðu Moore. „Julianne er fædd í þetta hlutverk enda virðist hún himnesk. Hún er úr öðru konungdæmi. Allt annað en venjuleg.“

Í samtali við Collider kveðst Meghann Fahy hafa haft mikið yndi af því að taka þátt í gerð Sírena. „Þetta var svo sannarlega skemmtileg upplifun. Tónninn var líka virkilega áhugaverður, vegna þess að þetta er svartur húmor undir áhrifum frá, ég myndi ekki segja fantasíu, heldur eins konar súrrealisma. Þegar allir þessir þættir koma saman er ekki leiðinlegt að vinna.“

Í öðru viðtali, við miðilinn Tudum, segir Fahy Sírenur fyrst og fremst fjalla um sambönd og tilhneigingu fólks til að hlaupa af sér fortíðina. Það á ekki síst við um Simone. „Við fylgjumst með Simone hlaupa í örvæntingu undan sjálfri sér meðan Devon skammast sín. Simone fer að minna hana á alla hennar vondu siði, vond sambönd og hvernig hún hefur komið illa fram við sjálfa sig.“

Rúmfötin eru með öðrum orðum ekki tandurhrein hjá DeWitt-fjölskyldunni, ekkert frekar en hjá Kell-fjölskyldunni.

Tvær á uppleið

Julianne Moore þarf ekki að kynna fyrir lesendum Lesbókar en Meghann Fahy og Milly Alcock eru nýliðar á stjörnuhimninum. Hin bandaríska Fahy, sem er 35 ára, sló í gegn í annarri seríu hins vinsæla myndaflokks Hvíta lótussins árið 2022. Eftir það hefur hún meðal annars leikið í myndaflokknum The Perfect Couple og kvikmyndunum Rebuilding, The Unbreakable Boy og Drop sem nýlega var í bíó hér á landi. Næst mun Fahy líklega birtast okkur í myndaflokknum The Good Daughter sem byggist á samnefndri skáldsögu eftir Karin Slaughter. Kærasti Fahy er einnig leikari og á hraðferð upp metorðastigann, hinn breski Leo Woodall, en þau léku einmitt saman í Hvíta lótusnum.

Milly Alcock er 25 ára gömul áströlsk leikkona sem sumir þekkja ugglaust úr þáttum á borð við Upright og House of the Dragon. Hún á aðeins eina kvikmynd að baki, The School, en fram undan eru risaverkefni, sem ættu að vekja óskipta athygli á henni, fyrst Superman og síðan Supergirl: Woman of Tomorrow, þar sem Alcock fer með hlutverk sjálfrar Súperstúlkunnar eða Köru Zor-El.

Já, þeim er ekki fisjað saman, Sírenunum.

til baka