Alvotech stóð fyrir útboði á heimildarskírteinum, svokölluðum Swedish Depository Receipts (SDR) á Nasdaq Stokkhólmi, samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrirtækið gefur út hlutabréf í Svíþjóð og kemur fram í gögnum að þetta marki mikilvægan áfanga í þeirri stefnu félagsins að auka þátttöku norrænna og evrópskra fjárfesta í rekstrinum. Fyrirtækið er nú þegar skráð á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Útboðið náði til 441.600 SDR, sem voru eingöngu ætluð almenningi í Svíþjóð. Hvert SDR veitir rétt til eins hlutabréfs í Alvotech. SDR eru skráð afleiðuform hlutabréfa, sem gera fjárfestum í Svíþjóð kleift að eiga hlut í erlendu félagi án þess að eiga sjálf raunveruleg hlutabréf í því. Þessi lausn einfaldar skráningu og viðskipti á mörkuðum milli landa.
Sérstaða útboðsins felst í hagstæðum skilmálum því lokaverð miðaðist við annaðhvort meðaltalsverð eða lokaverð hlutabréfa Alvotech á Íslandi á tímabilinu 9. til 16. maí 2025, hvort sem yrði lægra að frádregnum 10% afslætti.
Samkvæmt tilkynningu félagsins var gengi í útboðinu 1.167,8 krónur (87,51 sænskar).
Öllum bréfum sem voru í boði var úthlutað, til meira en 3.000 einstaklinga. Tekjur af sölunni að undanskildum sölukostnaði eru um 516 milljónir króna (39 milljónir sænskra).
Morgunblaðið leitaði til Benedikts Stefánssonar, forstöðumanns fjárfestatengsla og samskiptasviðs hjá Alvotech, sem bendir á:
„Við lítum fyrst og fremst á skráninguna sem þjónustu við núverandi hluthafa og þá sem hyggjast fjárfesta í félaginu. Með skráningu í kauphöllina í Stokkhólmi kynnum við Alvotech fyrir fjölbreyttari hópi fjárfesta og getum breikkað hluthafahópinn og stuðlað að meiri viðskiptum með hlutabréfin. Sænski markaðurinn er mjög öflugur á sviði líf- og heilbrigðistækni og fjölmargir sterkir sjóðir í Skandinavíu og Evrópu fjárfesta á þessu sviði í gegnum kauphöllina í Stokkhólmi.“
Fjárhagsstaða félagsins hefur tekið jákvæðum breytingum á síðustu misserum. Í nýjasta uppgjöri félagsins fyrir fyrsta fjórðung 2025 skilaði Alvotech jákvæðri EBITDA upp á 20,5 milljónir USD. Í gögnum útboðsins er þó bent á mikinn taprekstur á árunum 2022 og 2023 og þörf á áframhaldandi fjármögnun. Slík ábending er ekki óalgeng hjá líftæknifyrirtækjum í vaxtarfasa með miklum fjárfestingum í rannsóknar- og þróunarstarfsemi.