Áformuð hækkun veiðigjalda mun hafa veruleg áhrif á byggðarlög við sjávarsíðuna, bæði atvinnulíf og sveitarfélög, í mismiklum mæli þó.
Þetta kemur fram í greiningu, sem KPMG vann fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, en slík greining fylgdi ekki frumvarpsdrögum Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Í greinargerð var hins vegar fullyrt að áhrifin yrðu óveruleg.
KPMG kemst vægast sagt að annarri niðurstöðu, en frá henni var greint á kynningarfundi í gærmorgun, þar sem nefndarmenn í atvinnuveganefnd Alþingis voru meðal gesta. Greining KPMG byggist á gögnum úr frumvarpinu, frá Fiskistofu og Hagstofu.
Sveitarfélög og fyrirtæki í húfi
Greiningin dregur fram, eins og sjá má hér til hliðar, hvernig hækkunin mun hafa mismikil áhrif á byggðarlög. Þar ræður stærð sveitarfélaga og hlutfallslegt vægi sjávarútvegs miklu. Ekki þarf mikið að breytast til þess að byggðir, þar sem þriðjungur launatekna íbúa kemur úr sjávarútvegi, finni áþreifanlega fyrir því. Eða einstök fyrirtæki komist í vandræði.
Þar segir heimilisfesti fyrirtækja ekki endilega alla sögu: þótt kontórinn sé í Reykjavík mun samdráttur koma niður á þeim plássum þar sem starfsstöðvar fyrirtækisins eru, og sum fjárfestingaráform raunar þegar komin á ís vegna óvissunnar.
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja, sem er jafnframt formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, segir að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í gerð greiningarinnar. Bæði hafi skort gögn og áhrifagreiningu frumvarpsins á einstök sveitarfélög. En komu niðurstöðurnar henni á óvart?
„Nei í rauninni ekki. En það vantaði upplýsingar greindar niður á sveitarfélög. Meðaltöl gefa ekki rétta mynd af áhrifunum.“
Niðurstöðurnar voru kynntar þingmönnum í atvinnuveganefnd í gærmorgun, hvernig tóku þeir þeim?
„Þingmenn hlustuðu og vildu fara betur yfir þessi gögn í nefndinni.“