Stór tímamót eru fram undan í Vestmannaeyjum en fimmtudaginn 21. maí næstkomandi opnar veitingastaðurinn Slippurinn í síðasta sinn.
Slippurinn opnar þá í fjórtánda skiptið og jafnframt síðasta sinn. Með því lýkur einstökum kafla í íslenskri matarmenningu, þar sem staðurinn hefur markað djúp spor – bæði í lífi stofnenda hans og í hugarheimi matargesta víðsvegar að úr heiminum.
Breytt með eigin höndum í veitingastað
Slippurinn var stofnaður árið 2012 af fjölskyldunni Katrínu Gísladóttur, Auðuni Arnari Stefnissyni og börnum þeirra Gísla Matt og Indíönu Auðunsdóttur, í gömlu húsnæði Vélsmiðjunnar Magna við höfnina í Vestmannaeyjum. Þá hafði húsið staðið autt í rúm fjörutíu ár, nýtt sem veiðifærageymsla, en var breytt með eigin höndum í veitingastað sem hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og aðdáun.
„Slippurinn varð fljótt að einhvers konar miðpunkti fyrir okkur – bæði í matargerð og í lífinu,“ segir Gísli Matt, matreiðslumeistari og einn stofnenda staðarins. „Við hófum þetta verkefni með takmörkuðum fjármunum en ómældum metnaði. Við unnum með því sem landið gaf okkur – sóttum í fjöruna, upp í brekkur, til bændanna og sjómannanna. Þetta varð vettvangur fyrir sköpun, sjálfbærni og tengingu við náttúruna – og við höfum vaxið með því.“
Eitt helsta kennileiti íslenskrar matargerðar
Slippurinn hefur verið eitt helsta kennileiti íslenskrar matargerðar síðastliðin þrettán ár og hlotið umfjöllun í fjölmiðlum á borð við The New York Times, Vogue, Wall Street Journal og BBC. Í sumar verða teknar upp þrjár erlendar sjónvarpsseríur á staðnum og heimildarmynd um síðasta rekstrarsumarið.
Veitingastaðurinn verður opinn miðvikudaga til sunnudaga frá klukkan 17.00 frá og með 21. maí til og með 13. september. Lokakvöldið verður auglýst síðar – og verður sérstakt í alla staði.
„Þetta er ekki sorg“
„Við trúum því að allt gott taki enda á réttum tíma. Þetta er ekki sorg, heldur fögnuður yfir því sem við höfum skapað og þeim áhrifum sem staðurinn hefur haft. Slippurinn er stór hluti af lífi mínu – en ég finn líka að ég er hvergi nærri hættur. Ég er þakklátur fyrir þessa ferð og hlakka til að halda áfram að þróa nýjar hugmyndir og verkefni – með sömu ástríðu, sama heiðarleika og sömu virðingu fyrir hráefninu.“
Bókanir eru nú hafnar á heimasíðu Slippsins hér.