Rafskútunotendur Hopp fara samanlagt að meðaltali hálfan hring um jörðina á hverjum degi.
Hvert rafmagnshlaupahjól er notað að meðaltali í fjórar ferðir á dag, eða um 6,5 kílómetra. Um 3.200-3.300 hjól eru í umferð. Þetta er á meðal þeirra tölfræðiupplýsinga sem Hopp veitti mbl.is.
3,3 ferðir um hnöttinn á viku
Séu teknar samanlagðar vegalengdir sem rafskútuflotinn fer, samsvarar það hálfri leið um hnöttinn á hverjum degi, eða um 20.800 til 21.450 kílómetrum. Til að leika sér að tölum væri það um það bil 3,3 hringir um jörðina á viku eða 13 ferðir á mánuði.
Hopp hóf starfsemi sína haustið 2019 með 60 rafskútur í umferð en fljótlega var fjöldinn aukinn í 300.
„Þegar ég byrja hér árið 2021 þá fjölguðum við upp í 1.000. Árið eftir erum við komin með 3.000. Árin 2023 og 2024 eru fyrstu árin sem við störfum með tiltölulega sama fjölda af rafskútum,“ segir Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp í samtali við mbl.is.
42.000 notendur á mánuði
„Nú erum við búin að vera starfandi í fimm ár. Síðustu fjögur ár höfum við farið yfir tvær milljónir ferða á hverju ári,“ segir Sæunn.
Telur hún að fyrirtækið sé með 80-90% af öllum rafskútum sem eru í leigu á höfuðborgarsvæðinu.
Hún segir að frá maí og fram í október séu að meðaltali 42.000 rafskútunotendur Hopp-hjóla á mánuði.
„Ef allt þetta fólk væri að reiða sig á aðra samgöngumáta, hugsaðu þér hvað þetta hefur mikil áhrif út í umferðina,“ segir Sæunn.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/06/12/fa_afslatt_gegn_thvi_ad_leggja_i_staedi/
Borgin gefur pláss og Hopp veitir afslátt
Hún segir að meðal vinsælustu svæða sem starfsmenn Hopp dreifa skútunum á eru svokölluð Hopp-spott svæði, t.d. í Laugardalnum, Hlíðum, Borgartúni, Miðborginni, Hlemmi, Lækjartorgi, Vesturbænum og Granda.
Hopp-spott svæðin eru orðin 183. Er um að ræða sérstök velmerkt svæði bæði í Hopp-appinu og í raunheimi.
Svæðin eru gerð í samvinnu við einkaaðila og sveitarfélög, til að mynda Kópavog og Reykjavíkurborg.
„Reykjavíkurborg er að gefa okkur pláss, gefa okkur andvirði bílastæðis og þá veitum við afslátt af ferðinni fyrir notandann til að leggja á ákveðnum stöðum. Þetta skiptir okkur líka máli þegar við erum að dreifa og sinna rafskútunum,“ segir Sæunn. Um svipaða sögu er að segja í Kópavogi.