sun. 18. maí 2025 19:30
Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum.
Persaflóatúr Trumps brakandi „success“

Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum, telur opinbera heimsókn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til Sádí-Arabíu, Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmanna í liðinni viku hafa verið vel heppnaða.

„Þessi Persaflóatúr virðist hafa verið brakandi „success“ því forsetinn segist vera búinn að fá fjárfestingaloforð fyrir rúma trilljón dollara,“ segir Arnór.

Þannig segir hann afrakstur ferðar forsetans geta verið jákvæðan og að ekki veiti af.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/05/16/margra_ara_vegferd_syrlendinga_til_lydraedis_hafin/

Leitar þangað sem peningarnir vaxa á trjánum

Arnór segir Trump leita þangað sem peningarnir vaxi á trjánum og að hann hafi uppskorið ríkulega í ferð sinni til ríkjanna þriggja.

Spurður hvort Trump hafi ekki uppskorið bæði fyrir Bandaríkin og fyrir sig sjálfan segir Arnór að hann telji lítinn mun á því hvað Trump geri fyrir bandarísku þjóðina og sjálfan sig.

Telur þú það skipta miklu máli diplómatískt eða pólitískt að Trump stígi í vænginn við þessi arabaríki? 

„Það er erfitt að segja hvað hefur farið á milli manna á bak við tjöldin en eitt af því sem Trump hefur lýst áhuga á að ræða við ríki Miðausturlanda er fólkið á Gasasvæðinu.

Hann hefur lýst áhuga sínum á því að önnur ríki Miðausturlanda opni landamæri sín fyrir þessum rúmum tveimur milljónum flóttamanna.

Ef það hefur verið rætt, sem ég geri frekar ráð fyrir, er það auðvitað stórpólitískt mál.“

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/05/13/trump_og_kronprinsinn_undirritudu_vopnasamning/

Ekki þar með sagt að það sé útilokað

Arnór telur ljóst að ef fólkið verði flutt á brott muni Trump gera áform sín að veruleika um að útbúa einhvers konar rivíeru á Gasasvæðinu og það muni Ísraelsmenn styðja.

Heldurðu að fleiri þjóðir styðji þau áform?

„Maður veit það ekki. Maður veit ekki hvað þeir ræða þegar enginn er viðstaddur. Þjóðir hafa lýst yfir andstöðu sinni við þessum hugmyndum og áformum en það er ekki þar með sagt að það sé útilokað.“

til baka