Valgerður Gylfadóttir er með M.Sc.-gráðu í læknisfræðilegum rannsóknum og MBA-gráðu á sviði heilbrigðisvísinda. Hún starfar sem verkefnastjóri hjá Middlesex London Ontario Health Team og segir rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif útivistar á heilsu fólks, ekki síður á heilsu barna. Kanada stendur framarlega í náttúruuppáskrift, að læknar og heilbrigðisstarfsmenn ávísi grænum „lyfjum“ fyrir sjúklinga sína, sem er viðurkennt af kanadísku læknasamtökunum.
Mörg hundruð rannsóknir hafa verið birtar sem sýna fram á jákvæða tengingu útivistar og heilsu, jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Rannsóknir sýna fram á að útivist minnki líkurnar á krónískum sjúkdómum eins og astma, sykursýki, hjartasjúkdómum, háum blóðþrýstingi og heilablóðfalli.“ Þetta segir Valgerður Gylfadóttir, verkefnastjóri á Ontario Health Team-stofnuninni, sem starfar þvert á félags- og heilbrigðiskerfið í Ontario í Kanada.
Samþætting útivistar og heilsu er stór hluti af áhuga og starfi Valgerðar sem er með M.Sc.-gráðu í læknisfræðilegum rannsóknum og MBA-gráðu á sviði heilbrigðisvísinda.
„Ég ólst upp á Hellu í Rangárvallasýslu. Foreldrar mínir, Hjördís Gísladóttir og Gylfi Garðarsson, voru og eru mikið útivistarfólk. Pabbi var lengi formaður flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Á Suðurlandi eru fjöllin og jöklar allt um kring og við vorum mikið uppi um fjöll og firnindi með þeim.“
Þegar Valgerður var 16 ára flutti hún til Reykjavíkur og hóf síðar nám í líffræði við Háskóla Íslands. Eftir að hún lauk því fór hún í mastersnám til Vancouver í Kanada því þar er svo mikið útivistarsvæði.
Það var í hópferð frá Kanada til Kosta Ríka sem Valgerður hitti slökkviliðsmanninn Brad Judd frá London, um 400.000 manna bæ í Ontario. Þau urðu skotin hvort í öðru og þegar heim var komið prófuðu þau fjarbúð í um eitt ár. Eftir að hún kláraði mastersnámið flutti hún til hans og hjónaband þeirra er ástæða þess að Valgerður ílengdist í Kanada.
„Það er minna um fjöll í Ontario en þar eru stóru vötnin, The Great Lakes. Ég þurfti að venjast fjallaleysinu, en nýti vötnin og við erum með seglskútu, kanó og kajak,“ segir hún.
Útivistarsvæðin eru stór, eins og þjóðgarðar en eru í raun héraðsgarðar. „Þetta eru stór svæði með litlum stöðuvötnum og það er mjög vinsælt að fara inn í þessa garða og í skóglendið. Þarna er bæði friðsælt og fallegt. Hægt er að panta tjaldsvæði inni í görðunum, við vötnin. Það er hægt að synda í vötnunum.“
Ávísa grænum „lyfjum“
Valgerður segir frá þróun þess sem kallast Prescription for nature, eða náttúruuppáskrift, framtaki sem formlega var stutt af læknasamtökunum í Kanada, The Canadian Medical Association, árið 2022 og urðu þau þar með fyrstu landssamtök lækna til að leggja blessun sína yfir náttúruuppáskrift.
„Þetta er eins og að fá lyfseðil fyrir að fara út í náttúruna einu sinni á dag eða álíka.“ Hugtakið er alls ekki nýtt af nálinni en byrjað var á svokölluðum skógarböðum í Japan, en eins og Valgerður segir fór fólk ekki í böð í skóginum heldur snerist þetta um að dvelja í skóginum og „taka náttúruna inn“.
„Árið 1997 byrjaði þessi formlega náttúruuppáskrift á Nýja-Sjálandi. Það var svo 2013 sem grasrótarframtak ParkRx varð til í Bandaríkjunum, drifið áfram af heilbrigðisstarfsfólki sem trúir á náttúru og útivist til að viðhalda og bæta heilsu fólks.“
Náttúruuppáskrift fær ákveðna formfestu í Kanada árið 2020 þegar vitundarvakning á sér stað sem drifin er áfram af læknum og heilbrigðisstarfsfólki í gegnum PaRx og stofnunina BC Parks Foundation.
„Það er nokkurs konar fjáröflunarsjóður fyrir héraðsgarða í Bresku-Kólumbíu í samstarfi við Canada Parks, sem er ríkisstofnun.“ Valgerður útskýrir að markmið stofnunarinnar sé samstarf í grænni heilsu, með áhrif náttúru og umhverfis á heilsu fólks að leiðarljósi.
„Það eru mjög sterk tengsl þar á milli.“
Rannsóknir styðja framtakið
„Rannsóknir hafa sýnt að ef heilbrigðisstarfsfólk skrifar formlega upp á útivist þá hefur það meiri áhrif en einungis ráðleggingar. Sjúklingar eru líklegri til að fylgja ráðleggingum ef þær eru formlega uppáskrifaðar.“
Valgerður segir að síðan í júlí 2024 séu um 14.000 heilbrigðisstarfsmenn skráðir í PaRx-prógrammið og geti ávísað náttúru fyrir sjúklinga, þar af eru 7% kanadískra lækna. Um 14% lækna í Bresku-Kólumbíu eru í prógramminu.
„Eins og lyf geta verið niðurgreidd þá eru gefnir út fríir passar í héraðsgarðana, ýmsa skrúðgarða og náttúrusöfn með náttúruuppáskriftum.“
Eru til mælingar á árangri?
„Rannsóknir sýna að fólk verður hamingjusamara. Stresshormón í líkamanum lækka eftir aðeins 15 mínútna setu í skógi. Bólgur minnka, stress minnkar og líkur á sýkingu í lungum verða minni þegar COPD-sjúklingar [lungnasjúklingar] verja tíma í skógi. Eldra fólk sem býr í göngufjarlægð frá náttúrusvæði lifir lengur og er það óháð launum og almennri heilsu. Ein rannsókn sýndi að blóðþrýstingur lækkaði um meira en tíu stig hjá fólki sem sat, gekk eða slakaði á úti í skógi í fjóra tíma.“
Af samtalinu við Valgerði er ljóst hve mikið útivist hefur áhrif á heilsu fólks og þar með talið barna.
„Börn sem verja meiri tíma í náttúrunni eru heilsuhraustari og með sterkara ónæmiskerfi. Útivistin hefur jákvæð áhrif á heila og þau eiga auðveldara með að takast á við stress.“
Valgerður bætir því við að útivist hafi einnig jákvæð áhrif á umhverfið, því fólk sem er annt um náttúruna er líklegra til að fara betur með hana.
Spurð um útrýmingu grænna svæða á höfuðborgarsvæðinu segir Valgerður það vera tímaskekkju. „Græn svæði eru rosalega mikilvæg fyrir fólk. Alveg eins og gott mataræði, hreyfing og góður svefn sem eru uppistaða góðrar heilsu þá eru regluleg tengsl við náttúruna og félagsleg tengsl góð fyrir heilsuna, bæta og eru fyrirbyggjandi. Þótt það komi ekki í staðinn fyrir lyf.“
Ná sér marktækt fyrr
Dr. Anna Gunz, kollegi Valgerðar, starfar á barnaspítala London Health Sciences Centre, einum stærsta spítalanum í Ontario. „Hún hefur komið því í gegn að, alveg eins og hægt sé að panta lyf og próf í kerfum spítalans, sé hægt að panta útivist uppáskrifaða.“
Valgerður útskýrir hvernig rannsóknir hafa sýnt að börn sem liggja á stofu með glugga sem snýr að trjám eða gróðri ná sér marktækt fyrr en þau sem hafa glugga út að t.d. bílastæði eða næsta vegg.
„Við mat á hve verkjuð börnin voru, sem gert var bæði af börnunum sjálfum og heilbrigðisstarfsmönnum, kom í ljós að þau börn sem höfðu útsýni út á tré eða gróður voru minna verkjuð. Það þarf líka að hafa í huga að mörg þessara barna eru föst innan veggja spítalans á meðan þau eru að ná sér og þá hefur kollegi minn Anna einnig fengið í gegn að inni á deildum barnaspítalans séu pottaplöntur og tré.“
Útivist og slökun fyrir konur
Valgerður segir þau Brad ekkert endilega alltaf stunda útivistina saman því hann sé meira fyrir að vera heima en hún sé með mikla ævintýraþrá. Síðan hún kynntist Kate Green vinkonu sinni hafa þær farið saman í margar ævintýraferðir, en vinskapurinn er nú einnig orðinn að viðskiptasambandi þar sem þær stofnuðu ferðafyrirtækið Nature & Nurture Journeys um áhugamál sín í lok árs 2024.
„Við ætlum að bjóða upp á ævintýraferðir fyrir íslenskar konur sem hafa áhuga á að uppgötva Kanada og eins að fara með kanadískar konur til Íslands, svo þær fái tækifæri til að reyna á sig í góðum félagsskap en fái líka dekur og slökun.“
Valgerði finnst mikilvægt að blanda þessu tvennu saman og segir útivistina ekki endilega þurfa að snúast um að keyra sjálfan sig út, heldur að endurnæra sig.
„Það eru margar íslenskar konur sem hafa áhuga á útivistar- og hreyfiferðum og mér finnst spennandi að fá tækifæri til að kynna íslenskum konum kanadíska náttúru og öfugt.“
Valgerður segir frá því að í haust ætli þær t.d. að bjóða upp á ferðir til Killarney-héraðsgarðsins fyrir þær sem hafa áhuga á að fara til Toronto og fara svo með þeim í fimm daga ævintýri.
„Killarney-garðurinn er þekktur fyrir fjallgarðana, sem eru að vísu ekki háir, úr hvítum kvartssteini og bleiku graníti, stórt og fallegt skóglendi og fjölda stöðuvatna sem eru alveg tær með breiður af vatnaliljum.“ Hún segir göngu um fjallgarðinn ekki mjög erfiða en eina þá fallegustu leið sem hægt sé að fara í Ontario og bjóði upp á stórkostlegt útsýni yfir allt það sem garðurinn hefur að bjóða. Eftir ævintýrið er svo slakað á í glæsilegum fjallaskála, þar sem er m.a. saltvatnsútisundlaug, sána, flottir veitingastaðir og sólbekkir.
„Toppurinn í svona ferðum er að sitja undir stjörnunum við varðeld og hlusta á lóminn.“
Sjálfri finnst Valgerði gott að vera aktíf í náttúrunni en einnig hefur hún unun af að leggjast út í laut og slaka á, fylgjast með náttúrunni og hlusta.
Hvað gerir útivistin fyrir þig?
„Þetta er ró og það er gott að komast burt frá mannfjöldanum en ég fæ líka útrás fyrir ævintýraþrána. Þetta er núvitund án þess að maður átti sig endilega á því. Maður verður eitthvað svo lifandi þegar maður tekur eftir umhverfinu.“