lau. 17. maí 2025 06:30
Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar og Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups klipptu saman á borðann og innsigluðu þar með nýjan kafla í snyrtivörusögu verslunarinnar og fögnuðu með freyðandi drykkjum.
Glæsileg opnunarhátíð og freyðandi stemning allsráðandi

Það var sannkölluð stemning í Hagkaup Garðabæ, fimmtudaginn 15. maí, þegar ný og glæsileg snyrtivörudeild var opnuð formlega við hátíðlega athöfn. Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar og Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups klipptu saman á borðann og innsigluðu þar með nýjan kafla í snyrtivörusögu verslunarinnar að því fram kemur í tilkynningu frá Hagkaup.

Freyðandiu drykkir og makkarónur

Gestir voru boðnir velkomnir með makkarónum, freyðandi drykkjum og skemmtilegri tónlist sem skapaði létta og skemmtilega stemningu á staðnum.

 

Opnunin er hluti af markvissri stefnu Hagkaups um að styrkja stöðu sína á snyrtivörumarkaði og bjóða upp á einstaka verslunarupplifun. Nýja deildin er hönnuð með það í huga að hver heimsókn verði bæði nýstárleg og spennandi fyrir viðskiptavini.

„Þetta er mikilvægur áfangi í þróun fyrirtækisins,“ segir Sigurður Reynaldsson. „Við hófum þessa vegferð árið 2016 með endurgerð snyrtivörudeilda í Smáralind og Kringlunni, og síðan hafa aðrar verslanir fylgt í kjölfarið – þar á meðal Skeifan, Akureyri og Spöngin. Með opnuninni í Garðabæ erum við að leggja lokahönd á þessa uppbyggingu og niðurstaðan er eitthvað sem við erum einstaklega stolt af.“

Bæta vöruframboð og verslunarupplifun

Samkvæmt Sigurði hefur salan á snyrtivörum hjá Hagkaup aukist verulega á undanförnum árum. Þessi þróun endurspeglar bæði vaxandi áhuga íslenskra neytenda og þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í að bæta vöruframboð og verslunarupplifun.

„Við leggjum metnað í að mæta kröfum og óskum viðskiptavina okkar, ekki aðeins með breiðu úrvali af vörum, heldur með því að skapa heildræna og eftirminnilega upplifun. Nýja deildin í Garðabæ er glöggt dæmi um þá sýn,“ segir hann enn fremur.

Að lokum undirstrikar Sigurður að markmið Hagkaups sé skýrt: að vera leiðandi á sviði snyrtivöruverslunar á Íslandi. „Við höldum ótrauð áfram á þeirri vegferð – og opnunin í Garðabæ er stórt og spennandi skref í rétta átt.“

til baka