Óöruggt starfsumhverfi hefur löngum verið áhyggjuefni listamanna og þeirra sem berjast fyrir hagsmunum listamanna. Vinnustofur og listamannarekin rými eiga stöðugt undir högg að sækja og algengt er að menningarstarfsemi þurfi að víkja fyrir hótel- og gistiþjónustu. Margir sem berjast fyrir hagsmunum listamanna hafa lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni og vilja tryggja listamönnum meiri stöðugleika hvað vinnuaðstöðu varðar.
Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir myndlistarmaður er í forsvari fyrir Fyrirbæri, sem er listamannarekið rými við Ægisgötu 7 þar sem vinnustofur listamanna og gallerí er að finna. Húsið var á sínum tíma byggt fyrir stáltunnugerð og nú stendur til að breyta því í húsnæði fyrir gistiþjónustu enda er ágóðinn af slíkri starfsemi augljósari en af fjárfestingu í hugsjónastarfsemi listamanna sem ómögulegt er að reikna ágóðann af í Excel-skjali. Blaðamaður Morgunblaðsins fór yfir stöðuna með Katrínu Ingu og fékk innsýn í þennan heim listar og fjármagns og hvernig bæði ríki og einkageirinn gætu betur stutt við bakið á listamönnum.
Mikilvægar vinnustofur
„Þegar Fyrirbæri gerði leigusamning við eigendur Ægisgötu 7 sumarið 2022 ríkti mikil þörf fyrir vinnustofur listamanna. Þörf sem hefur einungis aukist síðan. Þá var skorturinn svo mikill að tala mátti um eins konar krísu. Við vorum nokkur, kollegar í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur, sem sátum saman á kaffistofu félagsins og ákváðum að láta reyna á þetta en okkur vantaði vinnustofur og húsið var auglýst til leigu. Ég bauðst til þess að taka að mér ábyrgð á leigusamningi og rekstri. Rýmið reyndist vera einstakt, ekki síst vegna nálægðar við verkstæði félagsins á Nýlendugötu. Það gerir listamönnum kleift að flytja verk á milli rýma og vinna að langtímaverkefnum í sérhæfðum aðstæðum en slíka aðstöðu væri ómögulegt að byggja upp annars staðar með sambærilegum gæðum og staðsetningu. Húsnæðið við Ægisgötu er einfaldlega fullkomið fyrir okkar vinnu, bæði vegna aðgengis og stærðar, en einnig sem lifandi hluta borgarinnar. Í dag má segja að vinnustofurnar séu einar þær mikilvægustu í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Katrín Inga.
Hún bendir á að ekki sé hægt að ætlast til að markaðurinn grípi samhengi verkanna strax og því sé nauðsynlegt að geta geymt listaverkin.
„Vinnustofur eru undirstaða í starfi listamanns en þar verða verkin til og þróun á sér stað. Listamenn þurfa einnig pláss til að geyma verk sín því margir eiga erfitt með að selja verk strax og oft líða ár eða áratugir áður en þau komast í safneign eða seljast. Því hafa sumir líkt listaverkum við eins konar ellilífeyri listamannsins eða jafnvel arfleifð menningarinnar. Samfélagið þarf tíma til að skilja og meta listina og eins þurfa listamenn tíma og öryggi til að skapa. Án vinnuaðstöðu verður engin sköpun. Þá má benda á að verkefni og tækifæri til að sýna verk sín koma oft með mjög skömmum fyrirvara og þá þarf vinnurými að vera aðgengilegt listamanni.“
Mikilvægt að skapa hvata
Katrín Inga segir margar leiðir færar til að styðja við bakið á listamönnum, bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila.
„Það eru fáir opinberir styrkir sem styðja sérstaklega við vinnustofuleigu fyrir utan Myndstef, sem er einn af mikilvægari sjóðum skapandi greina á Íslandi. Sveitarfélög sem vilja efla skapandi atvinnugreinar gætu séð hag sinn í að þróa styrkjakerfi þar sem listamenn geta sótt um „vinnustofubætur“ sem væru ekki ósvipaðar húsaleigubótum. Þá gætu ríki og borg jafnframt skapað hvata fyrir fasteignaeigendur því listamenn geta einfaldlega ekki borgað markaðsverð fyrir húsnæði þegar ekki er um traustar tekjur að ræða. Enda fæstir að skapa afurð sem skilar föstum tekjum um hver mánaðamót. Menningarstarfsemi er hægfara fjárfesting sem þarf langtímahugsun. Ríki eða sveitarfélög mættu þarna koma betur til móts við markaðinn og fasteignaeigendur.“
Hvatar fyrir einkageirann
Katrín Inga bendir einnig á ýmis tækifæri innan einkageirans.
„Fyrirtæki og einstaklingar eru ekki nægilega meðvituð um hversu mikil áhrif þau geta haft. Það þarf svo lítið til en það er hægt að kaupa mörg góð listaverk sem kosta kannski undir 100 þúsund krónum. Kaup einstaklinga á listaverkum hafa þau áhrif að strax við kaupin hækkar virði verkanna um helming. Ein sala getur gefur listamanni mikilvæga hvatningu og fjárhagslega von og styrkir um leið stöðu listamannsins og verka hans á markaðnum og hefur áhrif á þróun hans.
Þá hafa listaverkasafnarar einnig mikil áhrif og allir geta orðið safnarar. Við þekkjum það að erlendis kaupi safnarar eitt til tvö lykilverk úr hverri sýningu listamanns og geymi þau þar til markaðurinn tekur við sér. Þetta er góð fjárfesting fyrir safnarann. Það að einhver hefur valið að fjárfesta í þessum tiltekna listamanni verður til þess að virði hans hækkar á markaðnum og hann getur haldið áfram að vaxa sem listamaður.“
Býður skapandi samstarf
Katrín Inga hefur einnig reynt að virkja fyrirtæki í skapandi samstarf. „Ég hef líka nálgast fyrirtæki og boðið upp á skapandi samstarf, bæði í formi auglýsinga og verkefna sem eru sérsniðin að þörfum hvort annars t.d. með viðburðum, upplifunum eða vinnustofuheimsóknum þar sem hægt er að eiga skemmtilegt samtal um samtímamyndlist.“
Katrín Inga leggur áherslu á að löggjafinn þurfi einnig að skapa skattkerfi sem auðveldar fyrirtækjum og einstaklingum að styðja við listgreinina.
„Það myndi skipta sköpum ef skattkerfið væri hannað þannig að það væri hvati fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að kaupa listaverk og að kerfið væri aðlaðandi fyrir báða aðila og ekki fjárhagslega íþyngjandi. Þá geta listaklúbbar starfsmanna líka skipt máli, líkt og er hjá Arion banka og Seðlabanka Íslands. Þar greiðir starfsfólk reglulega í sameiginlegan sjóð og fyrirtækið leggur til upphæð á móti. Fleiri fyrirtæki mættu kynna sér þessa leið til þess að styrkja við stoðir íslenskrar myndlistar á sama tíma og starfsfólk fyrirtækja og listamenn njóta góðs af.“
Þarf að breyta hugsunarhætti
„Skapandi starfsemi er ekki sjálfbær í hefðbundnum skilningi. Listamaðurinn er alltaf að vinna í takt við samhengi framtíðarinnar og ávöxtunin kemur stundum ekki fyrr en síðar. Ísland er ekki að nýta nógu vel listina sem auðlind. Við verðum að nýta listina. Listin er jarðvegur gagnrýnnar hugsunar, grundvöllur nýsköpunar og efniviður heimspekilegrar hugsunar. Það er mikil mýta að listamaður skapi eitthvað af viti í eymd og fjárhagslegum örðugleikum. Það þarf að breyta þessum hugsunarhætti og hlúa að grunnstoðum listamannsins. Fjárhagslegt öryggi skapar tækifæri til þess að skapa og ég hvet alla sem hafa tök á til að kaupa verk af lifandi listamanni.“