mán. 19. maí 2025 06:30
Rakel María Hjaltadóttir býður upp á vikumatseðilinn að þessu sinni.
„Kveikti ekki á eldavélinni í 8 mánuði“

Rakel María Hjaltadóttir ultrahlaupari og þjálfari á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni en hún elskar góðan mat. Hún segist ávallt hafa verið matargat en ekki alltaf verið dugleg að elda.

Rakel Maríu er margt til lista lagt en hún er líka förðunarfræðingur og markaðsstjóri Saffran auk þess sem hún er snillingur að ná til fólks á samfélagsmiðlum.

„Ég tók nýverið við sem markaðsstjóri hjá Saffran og við það breyttist rútínan svolítið og nú er ég ekki eins mikið að vinna á kvöldin og ég er vön í förðunarbransanum og hef því meiri tíma til að útbúa kvöldmat og nostra í eldhúsinu.

Mér finnst það æðislegt því ég elska góðan mat. Ég hef mjög mikla matarást og þegar ég leggst á koddann á kvöldin er ég oftar en ekki að hugsa hvaða gómsæta mat ég ætla að fá mér daginn eftir,“ segir Rakel María dreymin á svipinn.

Alltaf verið mikið matargat

„Ég hef alltaf verið mikið matargat og elskað góðan mat en ég hef ekki alltaf verið dugleg að elda hann sjálf. Þegar ég bjó ein þá eldaði ég til að mynda alls ekki mikið. Það er fyndin saga að í íbúðinni sem ég bjó í áður en ég kynntist kærasta mínum, komst ég að því eftir að hafa búið þar í 8 mánuði að helluborðið var bilað. Ég kveikti sem sagt ekki á eldavélinni í 8 mánuði,“ segir Rakel María og hlær.

„En nú er sagan aðeins önnur og mér þykir ótrúlega gaman að elda fyrir okkur og enn þá skemmtilegra að njóta afrakstursins. Við búum saman tvö og erum bæði hlauparar svo við þurfum að næra okkur vel og eigum það sameiginlegt að elska góðan mat.

Nú er sumarið gengið í garð og það þýðir að hlaupatímabilið er formlega hafið. Á þessu tímabili er mikið um löng hlaup og mikla útivist, hvort sem er æfingar eða keppnir og þá, og maður þarf að næra sig í takt við það og borða vel og mikið.“

Svona mun vikumatseðillinn líta út hjá Rakel Maríu og lesendur fá góða innsýn yfir það sem hlauparinn vill borða til að ná sem bestum árangri.

Mánudagur – Ofnbakaður fiskréttur

„Ég elska mánudaga, byrjun á nýrri viku og maður kemur svo ferskur inn í vikuna og tilbúinn í allar áskoranir sem hún hefur upp á að bjóða. Ég hef alltaf sem reglu á mánudögum að ég byrja daginn á útihlaupi, alveg sama hvernig viðrar þá fer ég út og hleyp smá hring. 

Mér finnst það eiga að vera eins með matinn, maður byrjar vikuna alltaf á hollum og góðum mat, það setur svolítið tóninn fyrir vikuna. Góður fiskréttur er því tilvalinn á mánudegi.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/04/28/girnilegur_ofnbakadur_fiskrettur_med_mozzarella_ost/

Þriðjudagur – Sætar kartöflur fylltar með osti

„Ég er sjúk í sætar kartöflur og þessi réttur er algjört æði og fljótlegur að útbúa. Kærasti minn kynnti mig fyrst fyrir svona fylltri sætri kartöflu og þetta er réttur sem við elskum bæði. Mér finnst frábært að bæta við kjúklingabaunum fyrir smá auka prótein.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/01/15/helga_magga_fyllir_saetar_kartoflur_med_osti/

Miðvikudagur – Kjúklingasalat með möndlum og berjum

„Ég er mikil salatkona og elska fátt meira en ferskt og gott salat. Mér finnst líka gott að fá létta máltíð inn í vikuna, sérstaklega svona á sumrin. Svo er svo sumarlegt og gott að hafa ber með í salatinu.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2017/04/25/kjuklingasalat_med_mondlum_og_berjum/

Fimmtudagur – Sterkur kjúklingur

„Mér finnst þetta vera ekta fimmtudagsmatur. Ég er mjög hrifin af sterkum mat og þessi uppskrift er eitthvað svo djúsí en samt næringarrík og góð. Tikkar í öll boxin ef þú spyrð mig.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/03/06/langar_thig_i_klistradan_og_sterkan_kjukling_rifur_/

Föstudagur – Indversk naan-pítsa

„Á laugardögum erum við oftast með langt æfingarhlaup eða keppnishlaup á sumrin og því er mjög algengt að við höfum kolvetnaríkan mat á föstudagskvöldum. Ég er ekkert sérstaklega mikil pítsukona en þessi indverska naan-pítsa er æðisleg.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2018/02/23/fyrir_alla_tha_sem_elska_pitsur_en_hata_fyrirhofn/

Laugardagur – Kjúklinga enchiladas miguel

„Á laugardögum er ómissandi að fá eitthvað sérstaklega djúsí og gott. Maður er oftast mjög svangur eftir langan æfingardag og mikið til í alvöru matarveislu. Mexíkóskur matur er minn uppáhalds og svona enchiladas er fullkominn laugardagsmatur. Svo er auðvitað góð nammiskál í desert.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/02/13/aedislega_gott_kjuklinga_enchiladas_miguels/

Sunnudagur – Nautaspjót með reyktri chimichurri

„Sunnudagar eru grilldagar, sérstaklega á sumrin. Mér finnst tilvalið að hafa smá sparimat á sunnudögum og góður grillmatur klikkar aldrei. Það er líka svo góð stemning að grilla og hafa góðan tíma til að njóta matarins.“

https://www.mbl.is/matur/frettir/2017/08/04/grillud_nautaspjot_med_reyktri_chimichurri_sosu/

til baka