Óratoríusveitin og söngflokkurinn Hljómeyki flytja Litlu messuna hans Rossinis (Petite messe solennelle) á morgun, sunnudaginn 18. maí, klukkan 19 í Salnum í Kópavogi.
Stjórnandi verður Stefan Sand og einsöngvarar þau Vera Hjördís Matsdóttir sópran, Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran, Þorbjörn Rúnarsson tenór og Gunnlaugur Bjarnason baritón. Þá leika þær Eva Þyri Hilmarsdóttir og Erna Vala á píanó en Flemming Viðar Valmundsson leikur orgelpartinn á harmóníku.
Segir um viðburðinn að þrátt fyrir að nafn verksins (lítil hátíðleg messa) bendi kannski ekki beint til þess sé messan þvert á móti stór í sniðum, skrifuð fyrir kór, fjóra einsöngvara, tvö píanó og eitt orgel.
Þurfa að tjúna sig vel saman
„Þetta er einmitt svolítið skemmtilegt því messan ber ekki alveg nafn með rentu. Þetta er konsertverk sem er mjög stórt í sniðum og er talið eitt af stórfenglegri verkum Rossinis á síðari hluta ferilsins. Það er mjög margslungið en með því að láta harmóníkuleikarann okkar spila orgelpartinn verður til afar skemmtilegur hljóðheimur. Verkið er líka mjög hátíðlegt, enda um að ræða kirkjuverk, en í senn er dálítill djassbragur á því og það er svolítið leikhúslegt þannig að það má auðheyrilega finna óperulegt yfirbragð í dramatískum laglínum og augnablikum. Sjálfur kallaði höfundurinn verkið einmitt „síðustu synd gamals manns“ sem endurspeglar hæfileika hans til að sameina hið helga og hið leikræna, jafnvel í trúarlegu samhengi,“ segir Vera sem syngur sópranpartinn í verkinu.
Aðspurð í framhaldinu segir hún verkið krefjandi fyrir söngvarana að því leyti að það reyni mikið á hlustunina. „Fyrir mig sem sópransöngkonu fer verkið ekkert sérstaklega hátt í raddsviði en það krefst þess hins vegar að við söngvararnir hlustum vel þar sem við erum alltaf að skipta um tóntegundir. Við þurfum því að tjúna okkur sérstaklega vel saman.“
Bætir hún því við að einungis sé um að ræða þessa einu tónleika og því fái fólk aðeins eitt tækifæri til að sjá verkið flutt í Salnum.
Hugarsmíð þriggja vina
Óratoríusveitin er nýtt félag sem stofnað var af Veru sjálfri, Stefan stjórnanda og söngvaranum Gunnlaugi en að sögn Veru stendur félagið að flutningi á óratoríum og öðrum konsertverkum sem eru skrifuð fyrir söngvara og hljóðfæraleikara.
Þá er markmið sveitarinnar að skapa ungu og upprennandi tónlistarfólki sem er að stíga sín fyrstu skref að námi loknu tækifæri til að koma fram við hlið reyndara tónlistarfólks og öðlast þar með dýrmæta reynslu. Segir hún sveitina einnig leitast við að brjóta upp hið hefðbundna tónleikaform, t.d. með því að leggja áherslu á túlkunar- og leiklistarlega hlið verkanna og þar með styrkja sjónræna upplifun áheyrenda.
„Félagið er í raun bara framtak þriggja vina sem langaði að gera tónlist, syngja og spila. Þetta var því okkar leið til að koma því í einhvern farveg og gefa öðru ungu fólki tækifæri til að fá að spreyta sig að námi loknu. Okkur finnst svo mikilvægt að það bíði manns einhver tækifæri þegar maður er búinn að læra og leggja mikinn tíma og metnað í námið. Þá er líka svo gott að gera það við hlið þeirra sem eru reyndari því það er svo mikill skóli.“
Brjálað að gera í söngnum
Vera lauk meistaragráðu í klassískum söng við Koninklijk Conservatorium í Den Haag undir leiðsögn Frans Fiselier en þar áður lauk hún bakkalárgráðu við Listaháskóla Íslands.
Þá kemur hún reglulega fram sem einsöngvari hér á landi en hún hefur haft fjölmörgum hnöppum að hneppa í vetur enda ansi annasamur tími að baki hjá henni í hinum ýmsu söngverkefnum. Innt eftir því hvort það reyni ekki á að hoppa úr einu hlutverki í annað svarar hún bæði hlæjandi og játandi:
„Þetta er fyrsti heili veturinn minn eftir að ég kem heim úr námi og mig óraði engan veginn fyrir því að það yrði svona mikið að gera hjá mér í söngnum og fyrir það er ég svo þakklát. Ég er líka að vinna í hálfu starfi á Grensásdeildinni en það er einnig starf sem á vel við mig.
Á móti því er ég búin að vera í þremur óperum síðan í byrjun árs; Brúðkaupi Fígarós, þar sem ég lék Barbarinu í uppsetningu Kammeróperunnar í Borgarleikhúsinu, Brím, eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson og Adolf Smára Unnarsson í Tjarnarbíói, og Hliðarspori,eftir Þórunni Guðmundsdóttur sem var í Gamla bíói. Svo jú, þetta er búið að vera svolítið galið en alveg ótrúlega gaman,“ segir hún kímin.
Tekur hún fram í kjölfarið að hún sé þó alveg einstaklega heppin þar sem hún mæti miklum skilningi, bæði hjá fólkinu sínu sem og á vinnustaðnum.
„Þau eru svo ótrúlega peppandi og allir eru svo duglegir að skipta við mig um vaktir. Þetta er því nokkurs konar púsluspil sem gengur samt einhvern veginn upp á endanum, ótrúlegt en satt.“
Elskar að syngja á Íslandi
Segir Vera lítið lát á því hversu mikið sé að gera en fram undan í sumar og næsta vetur eru ýmis verkefni, sum þess eðlis að of snemmt er að ljóstra upp um þau hér og nú.
„Ég er með mörg járn í eldinum og er meðal annars að fara til Ítalíu í sumar á söngnámskeið og þar verður sú sem stjórnaði í Brúðkaupi Fígarós, Elena Postumi, á meðal kennara. Þannig að ég stefni bara á að halda áfram að læra og njóta. Það er svo gaman að gera það sem maður elskar mest og það er að syngja á Íslandi,“ segir hún og tekur fram að lokum að mikil eftirvænting sé hjá sér fyrir komandi tímum sem og sýningunni núna á sunnudaginn.
„Æfingarnar hafa gengið rosalega vel hjá okkur og það eru allir í hópnum mjög spenntir.“