Eyjólfur Árni Rafnsson fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins var viðmælandi í síðasta opnuviðtali ViðskiptaMoggans.
Spurður út í stöðu samkeppnismála á Íslandi og fyrirferð Samkeppniseftirlitsins, SKE, á markaðinum segir Eyjólfur að öflugt samkeppniseftirlit sé nauðsynlegt hér eins og annars staðar. „En við þurfum að passa okkur á að horfa ekki bara á litla innlenda markaðinn sem samkeppnisumhverfið þegar myndin er oft á tíðum mikið stærri. Við erum í alþjóðlegri samkeppni í mörgum greinum, t.d. í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, áliðnaði, ýmissi ráðgjöf eins og verkfræðiþjónustu og hugverkaiðnaði. Þegar ég var forstjóri verkfræðistofunnar Mannvits, sem áður hét Hönnun og nú COWI, voru útboð á evrópska efnahagssvæðinu að byrja. Þá upplifði maður að samkeppnisumhverfið var allt annað en áður. Þú varst að keppa við stórfyrirtæki um alla Evrópu, ekki bara kollegana hér innanlands. Oft finnst mér vanta skilning SKE á þessu. Það er stundum gengið fullhart fram í skilgreiningum á markaði og stærð hans. Það verður til trafala þegar fyrirtækin eru að reyna að auka hagræði, til hagsbóta fyrir almenning.“
Eyjólfur nefnir nýlegt dæmi um breytingu á búvörulögum sem fól í sér undanþáguheimild sláturhúsa og kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum til samstarfs og sameiningar sem Alþingi samþykkti á síðasta ári en hefur nú verið afturkölluð. „Við hjá SA, SI og Bændasamtökunum vorum sammála um það fyrir nokkrum árum að auka þyrfti hagræði í afurðastöðvunum og opna fyrir þennan möguleika. Þetta ræddum við við yfirvöld. Við töldum að hægt væri að ná fram allt að þriggja milljarða hagræði á ári. Það eru verulegir peningar sem myndu skila sér til neytenda, bænda og afurðastöðva, en þetta náði svo ekki fram að ganga.
Svo kemur þetta frumvarp hjá síðustu ríkisstjórn sem ég tel að hafi einfaldlega gengið of langt. Ég hefði viljað draga línuna við að það gilti bara um þær afurðastöðvar og þá framleiðslu sem nyti opinbers stuðnings. Ég held að þetta sé hluti af vandamálinu. En að taka þetta algjörlega til baka og koma með ekkert í staðinn er ekki gott. Það þarf að ná fram hagræðingu á þessum litla markaði. Þarna finnst mér SKE hafa skrýtna afstöðu, að taka ekki tillit til þess að einingarnar hér eru alltof litlar. Því hefur einnig ranglega verið haldið fram að samkeppnislög hafi verið felld úr gildi með frumvarpinu en það var sannarlega ekki svo. Ákvæði um bann við misnotkun markaðsráðandi stöðu gilda að sjálfsögðu auk þess sem SKE var falið að hafa eftirlit með framkvæmdinni.“
Viðtalið í heild sinni má lesa í ViðskiptaMogganum sem kom út sl. miðvikudag.