Stundum þarf eitthvað sem sker sig úr, eitthvað sem er bæði létt og djúsí, með ferskan karakter og silkimjúka áferð. Þessir lemon-curd snúðar sameina súran sætleikann úr sítrónunni og mjúka fyllingu í hverjum bita.
Þeir eru fullkomnir þegar ykkur langar í eitthvað öðruvísi en hefðbundna kanilsnúða – bæði litríkir og einstaklega bragðgóðir. Með sítrónu-ostakremi ofan á verða þeir nánast hættulega góðir.
Þetta er einföld uppskrift með óvæntum lúxus og kemur úr smiðju Árna Þorvarðarsonar bakara og fagstjóra við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi sem kann svo sannarlega að gleðja lesendur með gómsætum uppskriftum að snúðum.
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/05/03/snudaveislan_hans_arna_heldur_afram/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/04/26/undursamlega_ljuffengir_cinnabon_snudar_med_ostakre/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/04/13/mogulega_bestu_snudar_sem_thu_hefur_smakkad/
Lemon curd snúðar með sítrónu-ostakremi
Deig
- 300 g volgt vatn
- 60 g sykur
- 4 msk. olía
- 1 tsk. salt
- 1 msk. þurrger
- 600 g hveiti
Fylling
- 230 g Good Good lemon curd
Sítrónu-ostakrem
- 40 g rjómaostur
- 75 g mjúkt smjör
- 1 tsk. vanilludropar
- 200 g flórsykur
- 20 g lemon-curd
Aðferð:
- Byrjið á því að virkja gerið með því að blanda því saman við volgt vatn og sykur.
- Leyfið því að freyða og koma sér í gang, bætið olíu og salti við, og síðan hveitinu smátt og smátt.
- Hnoðið þar til deigið er mjúkt, slétt og aðeins klístrað – þetta er hjartað í góðum snúðum.
- Setjið deigið í skál, breiðið viskastykki yfir og leyfið því að hefast í ró og næði í um 15 mínútur.
- Rúllið næst deiginu út í stóran ferhyrning og smyrjið lemon-curdinu yfir.
- Rúllið upp í þétta rúllu og skerið í sneiðar með beittum hníf.
- Raðið snúðunum í bökunarform og leyfið þeim að lyfta sér aftur í um það bil 40 mínútur, svo þeir verði léttir og mjúkir.
- Bakið við 180°C í 12-15 mínútur þar til snúðarnir verða gullinbrúnir og ilmurinn fyllir húsið.
- Smyrjið sítrónukreminu yfir á meðan snúðarnir eru enn heitir. Kremið bráðnar ofan í hverja rifu og gerir hvern bita silkimjúkan og syndsamlega góðan.
- Það er líka fallegt er að sprauta lemon-curd yfir snúðana með kreminu
- Kremið er best sett á þegar snúðarnir eru volgir – ekki heitir, svo þeir bráðni ekki alveg, en samt nógu hlýir til að kremið mýkist örlítið og renni örlítið niður hliðarnar.
- Þið getið smurt því á með skeið, spaða eða sprautupoka ef þið viljið fá fallega útlitsáherslu.
- Ef þið viljið extra sítrónukeim, má strá smá sítrónubörk yfir rétt áður en snúðarnir eru bornir fram.