lau. 17. maí 2025 17:00
Kjartan segir að hundruð þúsunda viðskiptavina um heim allan noti Noona-appið til að þess að bóka þjónustu og aðrar upplifanir.
Svipmynd: Tækifærin bókstaflega endalaus

Kjartan Þórisson, stofnandi og framkvæmdastjóri Noona Labs, segir að þrátt fyrir að Noona hafi nýlega selt innlenda reksturinn til Símans, haldi hann áfram með hugbúnaðarþróun og erlendan rekstur undir merkjum Noona Labs.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Fókus og forgangsröðun. Tækifærin í hugbúnaðargeiranum eru bókstaflega endalaus og það á sérstaklega við núna í miðri gervigreindarbyltingunni.

Við hjá Noona þjónustum frumkvöðla og fyrirtækjaeigendur í mörgum mismunandi geirum í mörgum mismunandi löndum og ofan á það eru hundruð þúsunda um allan heim sem nota appið okkar til að bóka þjónustu og upplifanir. Það er alltaf nóg að gera, listin er fólgin í því að vita hvenær og hvar þú þarft að segja nei.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Framtíðarsýn okkar fyrir Noona er metnaðarfull og hefur mikið innbyggt aðdráttarafl.

Ofan á það fyllir það mig lífsorku að fá að vinna með hæfileikaríku og góðu fólki við að leysa stór og flókin vandamál – og það er alltaf nóg af slíkum. Almennt vil ég bara sjúga merginn úr lífinu og gera allt sem ég geri vel og af orku.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Halda áfram að móta framtíð stafrænna viðskipta með því að hjálpa fólki og fyrirtækjum að spara tíma og einfalda sér lífið.

Við erum núna í kjörinni stöðu til að hugsa til lengri tíma og skauta þangað sem pökkurinn verður eftir 3-5 ár.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Úff, ég og Noona erum samsuða af svo ótrúlega mörgum bókum og hugsuðum. Ég man að „No Rules Rules“ eftir Hastings hafði mikil áhrif á okkur, sem og „Principles“ eftir Ray Dalio. The Goal eftir Goldratt, Good Strategy Bad Strategy eftir Rumelt, allar Ben Horowitz-bækurnar, Deep Work eftir Cal Newport – gæti haldið áfram endalaust.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Endalaus forvitni og ótæmandi þekkingarlosti. Ég vil skilja hluti djúpt til að minnka líkurnar á því að ég finni sjálfan mig á röngum enda Dunning-Kruger-kúrvunnar, eða verra, að hafa neikvæð áhrif þegar ég hélt ég væri að gera eitthvað jákvætt. Ég nota síðan kerfi sem heitir Obsidian til að glósa og skrifa um það sem ég er að læra, samhliða því að halda uppi götóttri dagbók.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Ég reyni það eins og ég get. Ég tek stutta jóga- og styrktarrútínu flesta morgna og reyni svo að komast í rækt eða sund a.m.k. 4-5 sinnum í viku en það tekst ekki alltaf. Ef ekki finn ég mig knúinn til að fara í göngutúr eða sambærilegt, þó það hryggi mig að fara í Öskjuhlíðina þessa dagana.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Rithöfundur og fræðimaður með fjárfestingar-portfólíó á hliðinni. Þá fengi ég alvöru svigrúm til að nördast. Mig hefur líka lengi dreymt um að reka djassbar eða kaffihús með engum gróðavæntingum.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Það er rosalega góð spurning. Ég kláraði náttúrulega aldrei háskólann vegna þess að mér fannst ég vera að læra hraðar utan veggja skólans en innan, en ég sé mikinn sjarma í því að stúdera eitthvað djúpt svo lengi sem ekkert annað áríðandi og aðkallandi utan skólans væri að þynna út athygli mína.

Ef ég myndi hætta að vinna og fara að læra væri það líklega nám sem myndi reyna mikið á samskipti og samræður innan kennslustofunnar, og eitthvað sem myndi gefa mér ríflegt svigrúm til að nördast og uppfylla þekkingarlostann.

Ég myndi líka að öllum líkindum sækjast eftir því að læra erlendis í loftslagi þar sem ég gæti farið léttklæddur í göngutúra allan ársins hring.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Stuðningsumhverfið við nýsköpun á Íslandi er mjög gott. Hér má nefna Rannís, Klak, Íslandsstofu, Innovation Week og fleiri. Á hinni hliðinni má segja að íslenska krónan geri lífið ekki beint einfaldara í hugbúnaðargeiranum, þar sem ýmsar lausnir sem myndu virka erlendis virka ekki hér. Að lokum er mjög dýrt að búa hérna, sem skilar sér í háum launakröfum, en á sama tíma er vinnukúltúrinn hér töluvert rólegri en á mörgum öðrum stöðum (og leikskólar mikið lokaðir). Þetta getur skilað sér í minni samkeppnishæfni á erlendum mörkuðum ef ekki eru fundnar leiðir til að bæta þetta upp.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Það þarf eitthvað að endurhugsa hlutverk Samkeppniseftirlitsins, sú ágæta stofnun er ekki alltaf með athyglina þar sem hún ætti að vera og upplýsingaflæðið er lélegt á meðan ferillinn er í gangi, ég þekki þetta því miður af eigin reynslu.

 

til baka