Spenna á milli Indlands og Pakistan hefur aukist hratt í kjölfar hryðjuverka í Kasmírhéraði á þriðjudag. Hefur Indland t.a.m. fyrirskipað öllum pakistönskum ríkisborgurum að yfirgefa landið fyrir 29. apríl. Óttast er að spennan muni stigmagnast og leiða til hernaðarátaka á milli ríkjanna.
Árásin á þriðjudag var sú mannskæðasta í Kasmírhéraði í rúman aldarfjórðung, en 26 manns létust. Um var að ræða indverska ferðamenn að einum undanskildum sem var frá Nepal.
Að sögn vitna komu árásarmennirnir úr nærliggjandi skógi og skutu með sjálfvirkum vopnum. Þeir aðskildu karla frá konum og börnum, og var karlmönnunum skipað að fara með trúarjátningu múslima. Þeir sem það gátu ekki voru teknir af lífi.
Tveir árásarmenn með tengsl við pakistönsk hryðjuverkasamtök
Indversk stjórnvöld hafa kennt Pakistan um árásina. Lögreglan hefur sagt að tveir árásarmennirnir séu pakistanskir ríkisborgara og liðsmenn samtakanna Lashkar-e-Taiba (LeT), sem eiga rætur sínar að rekja til Pakistans.
Þó hafa önnur hryðjuverkasamtök, Andspyrnufylkingin (The Resistance Front), TRF, lýst ábyrgð á árásinni. Eru þau samtök talin vera afsprengi LeT.
Indversk stjórnvöld æf eftir árás
Pakistönum gert að yfirgefa Indland
Viðbrögð Indlands við árásinni hafa verið róttæk. Indland ætlar tímabundið að segja upp vatnsaðstoðarsamningi frá 1960, sem felur í sér gagnkvæma aðstoð nágrannaríkjanna við að halda úti neyðarvatnsbirgðum á Himalajasvæðinu.
Einnig verður stærsta landamærahliðinu milli Indlands og Pakistans lokað og öllum pakistönskum ríkisborgurum gert að yfirgefa Indland fyrir 29. apríl, að undanskildum diplómötum.
Svara í sömu mynt
Pakistan, sem hafnað hefur alfarið ásökunum Indlands, hefur svarað aðgerðunum í sömu mynt. Verður indverskum diplómötum vísað úr landi og vegabréfsáritanir fyrir indverska ríkisborgara afturkallaðar.
Þá hefur Pakistan einnig lokað lofthelgi sinni fyrir indversk flug og sagt að ef Indland reyni að stöðva vatnsflæði neyðarvatnsbirgða verði litið á það sem „stríðsaðgerð“ sem verði svarað af fullum þunga.