fim. 24. apr. 2025 17:38
„Maður er farinn að venjast þessu á þann hátt að maður verður ekki lengur eins hræddur þegar árásir gerast, viðvaranir eru hluti af daglegu lífi hjá okkur,“ segir Óskar.
Leitaði skjóls frá árásum Rússa inni á klósetti

Óskar Hallgrímsson leitaði skjóls ásamt eiginkonu sinni inni á baðherbergi í nótt á meðan rússnesk flugskeyti dundu á Kænugarði í einni umfangsmestu loftárás á úkraínsku höfuðborgina í marga mánuði.

Tólf fórust og tugir særðust í árásinni.

Óskar Hallgrímsson sem er blaðamaður, heimildaljósmyndari og myndlistamaður, hefur verið búsettur í Úkraínu með eiginkonu sinni í nokkur ár.

„Það eru daglegar viðvaranir við sprengjuárásum hérna. Íslendingar segja oft að lífið gangi sinn vanagang og í Kænugarði er þetta einmitt það, vanagangur, en það er ekki eðlilegt eða í lagi, og verður það aldrei.

Maður er farinn að venjast þessu á þann hátt að maður verður ekki lengur eins hræddur þegar árásir gerast, viðvaranir eru hluti af daglegu lífi hjá okkur,“ segir Óskar í samtali við mbl.is.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/24/niu_latnir_eftir_storfellda_eldflaugararas_a_kaenug/

 

„Ég fór beint að vinna“

„Ég kom heim úr fríi, við tóku svakalegar árásir og ég fór beint að vinna, ég er búinn að vera að mynda aðstæður í Kænugarði í allan morgun og er alveg ósofinn,“ segir Óskar, en hann og konan hans komu heim úr rúmlega tveggja vikna fríi í úkraínsku sveitinni í gær – fyrsta fríi sem hann hefur tekið sér í þrjú ár.

„Ég var farinn að finna fyrir stríðinu og var kominn með líkamleg ummerki þess að vera að vinna stanslaust í miðju stríði,“ segir hann. Fjölskylda hans hafi því beðið hann um að taka sér pásu og þau hjónin farið eins langt frá stríðinu og þau komust og slakað á í sveitinni í rúmar tvær vikur.

„Við komum heim í gærkvöldi og ég var mjög slakur og úthvíldur eftir fríið og steinsofnaði um kvöldið. Um hálftíma seinna vaknaði ég við svakalegar sprengingar. Oft heyri ég læti í fjarlægð þegar verið er að skjóta niður einhverja dróna, og maður kippir sér ekkert upp við það lengur, en þetta var mjög umfangsmikið, stórt og kom í mörgum bylgjum. Það er greinilegt að mikið af sprengjunum hafi komist í gegn.

En svo veit maður ekki neitt. Við hlupum strax inn á baðherbergi og enduðum á að vera þar alla nóttina.“

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/24/selenski_aflysir_fundum_i_s_afriku_og_heldur_heim/

 

„Þumalputtaregla“ að hafa tvo veggi á milli

Hvers vegna leituðuð þið skjóls inni á baðherbergi?

„Íbúðin okkar er uppi á áttundu hæð og það er sprengjuskýli í kjallaranum en viðvörunarflauturnar heyrast einu sinni, tvisvar á dag hérna – ég myndi ekki gera annað en að hanga í þessum kjallara ef ég færi niður í hvert skipti. Yfirleitt fer maður ekki í skjól nema maður þurfi virkilega á því að halda og þumalputtareglan er sú að þú vilt hafa tvo veggi á milli þín og umhverfisins – því fleiri veggir, því betra.

Hjá okkur er t.d. útveggur og svo tveir aðrir veggir inn að baðherberginu, sem úr öllum áttum er í miðri íbúðinni, þannig að baðherbergið er öruggasti staðurinn til að vera á og það er við hliðina á útganginum.“

Segir hann þau hjónin hafa lagt það í vana að leita þangað þegar þau telja þörf á því. „Ekki ef sprengingarnar eru í ákveðinni fjarlægð en ef við heyrum í drónunum, sem hljóma eins og skellinöðrur, þá eru þeir innan tveggja til þriggja kílómetra frá okkur, og þá höfum við verið að fara inn á bað“.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/04/24/trump_vladimir_haettu/

 

„Þjónaði engum hernaðarlegum tilgangi“

Aðspurður segir Óskar björgunarstarf í Úkraínu vera orðið eins og vel smurð vél. Hann hafi farið á vettvang í morgun og orðið vitni að skemmdum, eyðileggingu og grátandi, hræddu og syrgjandi fólki á götunum, en viðbragðsaðilar hafi þegar verið búnir að fara vel yfir svæðið og fjarlægja mest allt af götunum.

„Þetta var að gerast í nótt og ég var að koma þarna um klukkan 10 í morgun, björgunarstarfið er orðin mjög vel smurð vél. Það er visst kerfi sem fer í gang þegar árás verður – það koma viðbragðsaðilar sem vinna mjög hratt og vel, hreinsa allt af götunum, fullvissa sig um að enginn sé eftir inni í byggingunum, slökkva elda, taka skýrslur af fólki, ganga úr skugga um að það sé enginn gasleki og svo mikið fleira.

Þessi árás náði yfir frekar stórt svæði, þetta voru allavega svona sjö til átta byggingar sem gjör skemmdust. Það var ráðist á allar stóru borgirnar í Úkraínu.

Þetta var mjög víðtæk árás og hún þjónaði engum hernaðarlegum tilgangi. Hún færði Rússa ekkert framar á víglínunni, styrkti herdeildir þeirra ekki neitt og dró ekki úr vilja vestrænna þjóða til að styðja Úkraínu, miklu frekar sjá þær að það er verið að myrða saklausa borgara.“

til baka