FH er enn á lífi í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta eftir stórsigur á Fram á heimavelli, 36:20, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í kvöld.
Er staðan í einvíginu 2:1, Fram í vil, og verður fjórði leikurinn í Úlfarsárdal á sunnudaginn kemur.
FH byrjaði mun betur og komst í 5:1. Heimamenn héldu undirtökunum en urðu fyrir áfalli á 15. mínútu þegar Ólafur Gústafsson fékk beint rautt spjald fyrir að keyra Reyni Þór Stefánsson harkalega niður.
Var staðan þá 9:5 og FH-ingar enn þá með undirtökin sem þeir náðu í snemma leiks. FH hélt áfram að bæta í og náði sjö marka forskoti í stöðunni 14:7. Þegar fyrri hálfleikur var allur var munurinn kominn upp í níu mörk, 18:9.
FH byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði 14 marka forskoti snemma, 25:11. Var þá aðeins spurning hve stór sigur FH-inga yrði.