Afturelding vann sinn fyrsta sigur í efstu deild karla er liðið lagði Víking, 1:0, í Bestu deild í knattspyrnu í kvöld.
Víkingur er áfram í öðru sæti deildarinnar með sex stig en Afturelding er í sjöunda sæti með fjögur stig.
Víkingar fóru betur af stað og á 17. mínútu fékk Gylfi Þór Sigurðsson dauðafæri til að koma þeim yfir. Gylfi komst inn í slaka sendingu Axels Óskars Andréssonar og var einn á móti markmanni en Jökull Andrésson, markvörður Aftureldingar, sá við honum.
Í kjölfarið tók við góður kafli heimamanna. Georg Bjarnason fékk gott færi eftir undirbúning frá Elmari Kára Enessyni Cogic en Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, varði skot Georgs.
Á 34. mínútu kom Viktor Örlygur Andrason boltanum í netið með snyrtilegri hælspyrnu eftir fyrirgjöf frá Gylfa en hann var dæmdur rangstæður og markið stóð því ekki.
Staðan var markalaus í hálfleik.
Síðari hálfleikur fór rólega af stað. Liðin skiptust á að vera með boltann án þess að skapa sér færi.
Það dró til tíðinda á 66. mínútu þegar Afturelding fékk vítaspyrnu. Oliver Ekroth felldi Hrannar Snæ Magnússon sem var sloppinn einn í gegn og benti Gunnar Oddur Hafliðason, dómari leiksins, á punktinn.
Hrannar fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Markið er fyrsta mark Aftureldingar í efstu deild karla í knattspyrnu.
Víkingar pressuðu stíft á lokamínútunum en án árangurs. Lokaniðurstaða því 1:0-sigur Aftureldingar.