fim. 24. apr. 2025 10:00
Eimreiðinni Minør var komið fyrir á sínum fasta stað í vikunni.
Eimreiðin boðar komu sumarsins

Hinn árlegi sumarboði er kominn á sinn stað á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík.

Starfsmenn Faxaflóahafna sóttu eimreiðina Minør í geymslu í vikunni og komu henni fyrir á sínum stað. Það hafa þeir gert árlega nálægt sumardeginum fyrsta.

Minør verður á Miðbakka til sumarloka, börnum og fullorðnum til gleði og ánægju sem endranær.

Liðin eru 108 ár síðan eimreiðarnar Minør og Pioner luku verki sínu við gerð Gömlu hafnarinnar, sem var geysimikil framkvæmd á sínum tíma.

Járnbraut var lögð frá Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn og síðar einnig frá Skólavörðuholtinu. Þar var tekið grjót sem sett var á vagna sem eimreiðarnar drógu niður að höfn.

Eimreiðin Minør er í vörslu Faxaflóahafna en eimreiðin Pioner er varðveitt á Árbæjarsafni. Þær minna á tíma járnbrauta á Íslandi, sem stóð stutt yfir. 

til baka