Fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson umsjónarmaður Spursmála á Morgunblaðinu og Sara Lind Guðbergsdóttir lögfræðingur og framkvæmdastjóri Climeworks á Íslandi halda hvort í sína áttina eftir 13 ára samband.
„Sumar tekur við af vetri og það minnir á að allt er breytingum háð. Fyrir nokkru síðan tilkynntum við fólkinu sem stendur okkur næst að við höfum ákveðið að halda hvort í sína áttina eftir þrettán ára samband og ellefu ára hjónaband.
Margt hefur drifið á dagana og óteljandi minningar hafa safnast í sarpinn. Þar eru efst á baugi auðvitað drengirnir okkar tveir sem eru það dýrmætasta sem lífið hefur fært okkur en líka ferðalög um veröld víða, 45 barnabækur, bókaþýðingar og –skrif og svo margt, margt annað sem við varðveitum áfram saman og sitt í hvoru lagi.
Við lítum hvorki á þetta sem strand eða skipbrot þótt vissulega sé þungur sjór þegar ákvörðun af þessu tagi er tekin. Hún er hvorki léttvæg né tekin af léttúð.
Nú leggjum við af stað mót framtíðinni með bjartsýni að vopni.
Við þessi tímamót fer húsið okkar yndislega, Mosagata 14, á sölu og við vonum að þessi einstaka eign komist í hendur fólks sem kann að njóta þeirrar frábæru aðstöðu sem hún hefur upp á að bjóða.
Það eru skuggaskil. Í þeim aðstæðum má velja á milli þess að horfa á dökku hliðarnar eða þær ljósu. Við vitum hvoru megin okkar augu enda. Þannig höfum við alltaf haft það,“ segir Stefán Einar í færslu á Facebook.
Fallegt fjölskylduhús
Hjónin hafa búið í parhúsi í Garðabæ sem nú er komið á sölu. Um er að ræða 224 fm hús sem reist var 2018. Húsið var tilbúið til innréttinga þegar Sara Lind og Stefán Einar festu kaup á húsinu og var það innréttað á smekklegan hátt með ljósum innréttingum í eldhúsi þar sem kampavínslitaður marmari setur svip sinn á rýmið en hann prýðir borðplötur og eyjuna sem er mikið stofustáss.