Kópavogsbæ er skylt að skipuleggja nú þegar um 200 lóðir fyrir íbúðabyggð í landi Vatnsenda og jafnframt að ráðast í gatnagerð vegna þeirra, en enn er óljóst hvernig staðið verður að skipulagi vegna 100 lóða til viðbótar, en þar stendur seinkun á afléttingu vatnsverndar í vegi fyrir verkefninu.
Svæðið sem hér er um að ræða
er við suðaustanvert Elliðavatn. Áætlað söluverð lóðanna 200 hleypur á milljörðum króna sé litið til nýlegra lóðaútboða í Kópavogi og Garðabæ.
Vatnsendajörðin er í eignarráðum Magnúsar Péturs Hjaltested, sonar Þorsteins heitins Hjaltested, sem
tók jörðina í arf samkvæmt erfðaskrá sem hvílir sem ævarandi kvöð á jörðinni. Á umliðnum árum hefur verið tekist á um eignarhald á jörðinni, en dómstólar hafa kveðið endanlega upp úr með það að erfðaskráin sé í fullu gildi og að eignarráðin yfir Vatnsenda séu á hendi hvers arftaka fyrir lífstíð.
Söluhæfar lóðir á næsta ári
Að sögn Sigurbjörns Þorbergssonar hæstaréttarlögmanns, sem gætt hefur hagsmuna eigenda Vatnsenda, er unnið að skipulagi og gerð svæðisins á vettvangi Kópavogsbæjar. Gert er ráð fyrir að sú vinna taki um hálft annað ár og að lóðirnar verði söluhæfar á næsta ári. Þá sé ráðgert að ljúka sem fyrst þeirri rannsóknarvinnu og útreikningum sem þarf svo aflétta megi vatnsvernd af öllu landi Vatnsenda.
Eignarnámssátt frá 2007
Forsaga málsins er sú að árið 2007 gerðu Þorsteinn Hjaltested og Kópavogsbær eignarnámssátt þar sem bærinn tók eignarnámi 864 hektara landsvæði úr Vatnsendajörðinni, annars vegar í því skyni að tryggja bæjarbúum neysluvatn og hins vegar til að reisa íbúðabyggð. Hluti af greiðslu eignarnámsbóta til eiganda Vatnsenda var að Kópavogsbær tók að sér að skipuleggja og útbúa að lágmarki 300 sérbýlislóðir á 35 hektara svæði sem Vatnsendi hélt eftir. Átti að skila svæðinu fullbúnu um mitt ár 2008.
Ýmislegt varð til þess að tafir urðu þar á, m.a. að ekki tókst að ná fram nauðsynlegum breytingum á svæðisskipulagi vatnsverndar, en einnig urðu deilur um eignarrétt á jörðinni til þess að tefja fyrir niðurstöðu.
Krafist var skaðabóta úr hendi Kópavogsbæjar vegna tafanna og höfðað dómsmál þar sem krafist var bóta vegna tapaðra leigutekna af lóðunum 300. Kvað Héraðsdómur Reykjaness upp þann dóm að greiddar skyldu bætur að fjárhæð 1.400 milljónir en þeirri niðurstöðu var snúið við í Landsrétti. Taldi Landsréttur að skyldan til að afhenda lóðir þar sem vatnsvernd hefur ekki verið aflétt hvíli enn á Kópavogsbæ. Þetta tekur til um 11 hektara svæðis og benda fyrirliggjandi rannsóknarniðurstöður til þess að vatnsvernd megi aflétta en á það hefur verið bent að frekari rannsókna sé þörf til að eyða óvissu í þeim efnum.
Til viðbótar ofangreindu mælir Landsréttur fyrir um að Kópavogsbæ beri að skipuleggja byggingarreit undir fjögur einbýlishús ásamt byggingarreit fyrir skemmu og hesthús í heimalandi Vatnsendabýlisins. Einnig að skipuleggja fjórar lóðir sem komi í stað lóðarinnar Vatnsendabletts 134 og tvær lóðir í stað lóðarinnar Vatnsendabletts 241a. Þá ber bænum og að greiða kostnað við stofnun framangreindra lóða í heimalandi Vatnsendabýlisins sem og þinglýsingu leigusamninga vegna þeirra.