Arngunnur Ýr Gylfadóttir myndlistarkona er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2025 og tók hún á móti viðurkenningu sinni í Hafnarborg í gær.
Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að Arngunnur Ýr hafi skapað sér gæfuríkan feril til áratuga. Verk hennar hafi varkið athygli og hún haldið einka- og samsýningar hér heima, í Bandaríkjunum og meginlandi Evrópu.
„Ég er svo sannarlega stolt. Virkilega heiðruð, glöð og þakklát. Ég vil gefa af mér og finnst frábært að fá til baka,“segir Arngunnur Ýr um nafnbótina.
„Ég hef þurft á myndlist að halda alveg síðan ég var eins árs segja foreldrar mínir. Það er satt. Ég var alltaf að teikna. Sterkasti krafturinn í mér er þessi þörf fyrir að tjá það sem ég upplifi. Þá er það yfirleitt á blaði, striga eða viðarplötu. Þannig hefur það verið alla mína tíð,“ bætir hún við.
Valdimar Víðisson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að Hafnfirðingar séu stoltir af árangri hennar en myndlistarkonan hefur valið sér samastað í Hafnarfirði í nærri aldarfjórðung á milli þess sem hún ferðast á milli heimila sinna hér og í Kaliforníu.
„Ég þakka Arngunni Ýr fyrir framlag hennar til menningarlífsins í Hafnarfirði fyrir hönd Hafnfirðinga. Við vonum öll að nafnbótin bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2025 verði henni hvatning til áframhaldandi árangurs við listsköpun sína,“ segir Valdimar.